Skoðun

Ljúkum við hring­veginn!

Árni Pétur Árnason skrifar

Árið 1974 var veglagningu hringinn í kringum landið lokið og hringvegurinn vígður með pompi og prakt. Árið 2019 var síðan lokið við að leggja bundið slitlag hringin í kringum landið og þeim áfanga fagnað með ögn minna pompi og prakt. Enn er þó stórt gat í hringveginum fyrir þau sem ekki eiga bíl því engar strætóferðir eru milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaði. Hvort sem er fyrir innlenda farþega eða fyrir túrista er þetta hamlandi, svo ekki sé minnst á uppbyggingu í bæjum Austurlands. Kostnaðurinn og tíminn sem felst í því að fara vesturleiðina er óheyrilegur:

Í dag, mánudaginn 4. mars, tekur ferðin frá Höfn í Hornafirði til Egilsstaða fimm daga, ef farið er með strætó. Ef lagt er af stað með fyrstu ferð, í hádeginu klukkan 11:54, er áætluð koma til Reykjavíkur klukkan 18:45. Næsti leggur hefst síðan daginn eftir klukkan 8:59 og koma á Akureyri er klukkan 15:29. Þó mætti líka taka vagn klukkan hálf fimm og koma á miðnætti. Á Akureyri bíða hins vegar vandræði. Þaðan er ekki keyrt austur á Egilsstaði á þriðjudagskvöldum, og ekki heldur á miðvikudögum og fimmtudögum svo bíða þarf þrjár nætur til viðbótar, með þeim kostnaði og ónotum sem af hljótast. Föstudaginn 7. mars má síðan taka morgunferð klukkan 7:59 og stíga svo út úr vagninum á Egilsstöðum klukkan 11:22. 4 sólarhringum, 23 klukkustundum og 28 mínútum eftir brottför frá Höfn. Í ferðinni eru innifaldar þrjár strætóferðir, fjórar næturgistingar og matur í fimm daga. Í besta falli myndi ferðin kosta um 100.000 krónur, m.v. 50.000 krónur í hótelgistingu, 40.000 krónur í strætómiða og 10.000 krónur í fæði.

Það er því ljóst að strætóferð milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða er ógjörningur. Leiðin þyrfti samt ekki að taka nema fjórar klukkustundir með nokkrum stoppum á leiðinni, ef aðeins hún væri þjónustuð. Það er löngu kominn tími til þess að ljúka við hringveginn og tryggja að almenningur (og túristar) geti ferðast hringinn í kringum landið með traustum almenningssamgöngum. Bíllaus lífsstíll á ekki að vera jaðarsport.

Höfundur er bíllaus.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×