Innlent

Karl Gunn­laugs­son er fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Gunnlaugsson gegndi formennsku í Mótorhjóla- og snjósleðasambandi Íslands á árunum 2006 til 2015.
Karl Gunnlaugsson gegndi formennsku í Mótorhjóla- og snjósleðasambandi Íslands á árunum 2006 til 2015. ÍSÍ

Karl Gunnlaugsson, akstursíþróttamaður og athafnamaður, er látinn, 57 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Mosfellsbæ á laugardaginn.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Karl var einn fyrsti Íslendingurinn til að keppa í akstursíþróttum á erlendri grundu og tók þátt í fjölda keppna á götumótorhjólum erlendis á áttunda og níunda áratugnum. Hann keppti sömuleiðis í enduro- og spyrnukeppnum hér á landi.

Karl vann til fjölda Íslandsmeistaratitla á ferli sínum og var kjörinn akstursíþróttamaður ársins 1991. Hann stofnaði á sínum tíma fyrirtækið Karls Neon og hóf svo innflutning á KTM-mótorhjólum árið 1994.

Karl kom að stofnun Sniglanna, bifhjólasamtala lýðveldisins árið 1985 og bar Sniglanúmerið 5. Þá sat hann stjórn Landssambands Íslenskra aksturíþróttamanna, í allmörg ár og í stjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins. Þá kom Karl að stofnun MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands, sem nú á aðild að Íþróttasambandi Íslands. Hann gegndi formennsku í MSÍ á árunum 2006 til 2015.

Eftirlifandi eiginkona Karls er Helga Thorlacius Þorleifsdóttir, en þau eignuðust tvö börn, Gunnlaug og Stefaníu Rós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×