Stjórnendum Eurovision er heimilt að útiloka keppendur ef þeir þykja hafa brotið gegn reglum keppninnar gegn pólitískum áróðri.
Kan, ríkisfjölmiðill Ísrael, hefur umsjón með þátttöku Ísraela í Eurovision og staðfesti í gær að höfundar October Rain og Dance Forever, sem varð í öðru sæti í undankeppninni, hefðu verið beðnir um að gera breytingar á textum laganna en á þann hátt að það hamlaði ekki listrænu frelsi þeirra.
Fyrirskipunin er sögð hafa komið frá forseta landsins, Isaac Herzog.
„Forsetinn lagði áherslu á að á þessum tíma, þegar þeir sem hata okkur freista þess að ýta okkur til hliðar og sniðganga Ísraelsríki á öllum sviðum, þá verði Ísrael að þenja rödd sína með stolti og halda höfðinu hátt og flagga fána sínum alls staðar á alþjóðasviðinu, sérstaklega í ár,“ sagði í yfirlýsingu Kan.
Þær línur sem líklega verður breytt í October Rain eru: „Það er ekkert súrefni eftir til að anda að sér“ og Þau voru öll góð börn, hvert og eitt þeirra“. Talið er að línurnar eigi að vísa til þeirra sem freistuðu þess að leita skjóls þegar Hamas-liðar fóru hús úr húsi og myrtu börn og fullorðna.