Hansa Rostock tapaði leiknum sannfærandi 0-3. Sveinn Aron var tekinn af velli í hálfleik í stöðunni 0-1.

Ragnar Ache skoraði öll þrjú mörkin, þegar hann var að fagna því þriðja hljóp hann út í horn til sinna eigin stuðningsmanna en þar mætti honum óvænt stuðningsmaður Hansa Rostock sem hafði brotið sér leið inn á völlinn.
Leikmenn Kaiserslautern ýttu honum strax frá sér og öryggisgæslan var fljót að bregðast við og fjarlægja manninn af leikvanginum. Hlé var gert á leiknum og dómari leiksins fékk míkrafón vallarþuls lánaðan til að segja áhorfendum að ef annað slíkt atvik kæmi upp yrði leiknum aflýst.

Ekkert slíkt atvik kom upp meðan leikurinn var í gangi en strax eftir leik braust annar stuðningsmaður Hansa Rostock inn á völlinn og hljóp í átt að markverði Kaiserslautern, en var yfirbugaður af öryggisgæslu áður en hann náði til hans.
Þá byrjuðu fleiri harðkjarna stuðningsmenn Hansa Rostock að brjótast inn á völlinn og krefjast svara fyrir slæmt gengi liðsins. Leikmenn beggja liða voru fljótir að forða sér inn í búningsherbergi.
Hansa Rostock er í slæmri stöðu í 2. Bundesliga, næstneðstir og þremur stigum frá öruggu sæti. Þeir geta þó unnið sig upp um sæti í næstu umferð með sigri gegn Eintracht Braunschweig, liði Þóris Jóhanns.