Innlent

Bein út­sending: Stækkaðu fram­tíðina

Atli Ísleifsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. vísir/arnar/ívar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, munu á blaðamannafundi kynna nýtt verkefni sem verið er að setja af stað í menntakerfinu og ber heitið Stækkaðu framtíðina.

Fundurinn fer fram í Réttarholtsskóla í Reykjavík og hefst um klukkan 13:30. Hægt verður að fylgjast með í beinu streymi að neðan. Verkefnið vinnur að því að víkka sjóndeildarhring barna og ungmenna, fá þau til að sjá frekari tilgang með námi og að kynna þau fyrir ólíkum fyrirmyndum úr atvinnulífinu.

„Stækkaðu framtíðina er verkefni fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins og felst það í því að sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsækja kennslustundir og lýsa starfi sínu, segja nemendum frá því hvernig nám þeirra hefur nýst og hvaða bakgrunn viðkomandi hefur.

Samhliða blaðamannafundinum verður vefurinn stækkaðuframtíðina.is opnaður með ákalli til þjóðarinnar um að taka þátt og leggja sitt af mörkum til skólasamfélagsins með því að skrá sig sem sjálfboðaliða í verkefninu. Stækkaðu framtíðina er sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra.

Markmið verkefnisins er að öll börn og ungmenni:

  • hafi jöfn tækifæri og aðgang að fjölbreyttu námi og störfum í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika;
  • sjái þá möguleika sem standa þeim til boða, óháð bakgrunni og staðsetningu;
  • fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki á vinnumarkaðinum; og
  • upplifi aukinn áhuga og sjá tilgang með námi sínu.

Dagskrá fundarins: 

  • 1. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • 2. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • 3. Stutt ávarp frá kennara, sjálfboðaliða og nemanda
  • 4. Bryony Mathews, sendiherra Bretlands á Íslandi, ræðir reynsluna af verkefninu í Bretlandi og reynslu sína sem sjálfboðaliði í verkefninu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×