Vinnan felst í því að leggja bráðabirgðahitaveituæð yfir hraunið sem rann í síðasta mánuði. Í það eru notaðir hlutar úr Grindavíkuræðinni sem var aflögð eftir eldgosið í janúar.
„Við erum búnir að taka úr henni 300 metra bút, gera leið í gegnum hraunið og erum að leggja þá pípu niður og tengja við,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá EFLU. Verkið hafi gengið vel, en um 25 vinni að því.

Þetta var flutt á staðinn í nokkuð löngum lengjum. Þetta eru fáar suður og þetta er aðallega þessi endafrágangur, tengingar við og svoleiðis, sem er málið í þessu núna. Og svo ein viðgerð aðeins neðar á pípunni sem var tekin í notkun í janúar.
Heitt vatn hefur verið á Grindavík að undanförnu, en lítið af því og á litlum þrýstingi.
„Þetta þýðir það að það tapast fyrir það fyrsta ekki eins mikið vatn út úr lögninni. Það verður meira vatn á kerfinu, bæði fyrir Grindavík og líka restina af Suðurnesjum. Svo í framhaldinu verður farið mjög rólega í að byggja upp þrýsting á kerfinu í bænum.“
Samhliða því þurfi píparar að fara aftur í hús í bænum, og stilla inntaksgrindur þannig að þær geti tekið við auknum þrýstingi á ný.
„En það er í raun og veru öll næsta vika sem fer í að mjaka þrýstingnum upp og breyta stillingum í húsunum samhliða því,“ segir Jón Haukur.