Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum sem vísar til nánari umfjöllunar á vef Vegagerðarinnar. Á vefsíðu Vegagerðarinnar eru vegfarendur beðnir um að fara sérstaklega varlega á þeim hluta sem fer yfir nýtt hraun.
Leyfilegur hámarkshraði á Grindavíkurvegi er 90 km/klst. frá Reykjanesbraut að nýja hrauninu (norðan Sýlingafells) sem rann yfir Grindavíkurveginn. Þaðan og að Bláa lóninu er leyfilegur hámarkshraði 50 km/klst. Beygjur á nýju tengingunni að Bláalónsvegi eru margar krappar og þarf að aka með gát þar. Sérstaklega þarf að gæta að sér á veginum þar sem hann liggur yfir nýja hraunið og þar er stranglega bannað að stöðva ökutæki enda er enn mikill hiti í vegi og á svæðinu í kring.
Vegurinn yfir hraunið á Grindavíkurvegi og ný vegtenging frá Grindavíkurvegi að Bláalónsvegi er með malarslitlagi og því líka nauðsynlegt að fara gætilega þess vegna.
Bannað er að leggja ökutækjum í vegkanti á allri þessari leið.
Grindavíkurvegur er lokaður almennri umferð sunnan við nýja vegtengingu að Bláalónsvegi sem sjá má á kortinu.