Innlent

Ung­lingum vísað af veitinga­stað og maður með vesen á slysa­deild

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla og slökkvilið höfðu í nógu að snúast í nótt.
Lögregla og slökkvilið höfðu í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var tvívegis kölluð til í gærkvöldi og nótt vegna einstaklinga sem voru til vandræða. Þá bárust einnig tilkynningar um líkamsárás og innbrot og þjófnað í heimahús.

Aðstoðar lögreglu var óskað við að vísa hóp unglinga út af veitingastað í póstnúmerinu 108 og þá barst beiðni um aðstoð frá slysadeild Landspítalans vegna einstaklings sem lét ófriðlega.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í heimahúsi í Kópavogi og um líkamsárás í póstnúmerinu 111. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Lögregla hafði einnig afskipti af ökumanni sem ók á 150 km/klst og sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Ók viðkomandi bifreið sinni að lokum yfir umferðareyju, með þeim afleiðingum að bíllinn var óökufær.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og var vistaður í fangageymslu lögreglu, þar sem hann verður þar til hægt verður að ræða við hann.

Ein tilkynning barst um umferðarslys, í póstnúmerinu 110. Þar urðu minniháttar meiðsl, samkvæmt lögreglu. Var einn ökumaður vistaður í fangageymslu. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×