Skoðun

Enn af Rapyd og röngum full­yrðingum

Garðar Stefánsson skrifar

Í grein minni sem birtist í síðustu viku benti ég á staðreyndir um Rapyd á Íslandi sem svar við ómálefnalegri gagnrýni og rangfærslum fámenns hóps fólks um fyrirtækið og starfsmenn þess. Ég virði það að fólk hafi ólíkar skoðanir og vissi að grein mín kynni að kalla fram viðbrögð enda gengur þessi fámenni hópur langt í að reyna að tengja Rapyd á Íslandi við átök í Mið-Austurlöndum. Slíkum rangfærslum verður ekki svarað. Hvað varðar rangfærslur og útúrsnúninga um raunverulegt eignarhald Rapyd á Íslandi vil ég hins vegar benda á eftirfarandi.

Rapyd á Íslandi er vissulega íslenskt fyrirtæki, með íslenska kennitölu, stofnað hér á landi og hefur haft hér starfsstöð í tugi ára. Félagið er með umfangsmikla starfsemi og 180 starfsmenn á Íslandi. Þessir starfsmenn byggja íslenskt samfélag og þurfa því miður að sitja undir ómálefnalegum áróðri um sinn starfsvettvang.

Umræða um eigendaskráningu í fyrirtækjaskrá, sem átti að gjaldfella grein mína og gera hana ótrúverðuga, byggir á vanþekkingu á því hvernig skráning raunverulegra eigenda virkar. Í ljósi þess að raunverulegt eignarhald á Rapyd á Íslandi er dreift og enginn einstaklingur fer beint eða óbeint með ráðandi hlut í Rapyd á Íslandi, þ.m.t. í gegnum eignarhald í móðurfélagi, eru þeir einstaklingar sem mynda stjórn Rapyd á Íslandi skráðir sem raunverulegir eigendur. Þvert á rangar fullyrðingar, styður þetta það sem kom fram í grein minni um dreift og alþjóðlegt eignarhald á Rapyd á Íslandi.

Krafa um sniðgöngu á Rapyd á Íslandi í nafni mannréttinda er að mínu mati ómálefnaleg og ómakleg. Rapyd á Íslandi og það góða starfsfólk sem starfar hjá félaginu hefur ekkert með ástandið í Mið-Austurlöndum að gera og er jafn vanmáttugt um að stöðva átökin og aðrir hér á landi. Hjá Rapyd starfar stór hópur fólks sem hefur byggt upp starfsemina á síðustu 40 árum. Viðskiptavinir félagsins þekkja starfsemina af góðu einu og hafa stutt við þróun á framúrskarandi greiðsluinnviðum á Íslandi. Við erum þakklát fyrir að svo verði áfram og fyrir þá fjölmörgu viðskiptavini sem hafa ekki látið áróðurinn á sig fá. Það væri óskandi að þeir sem ganga lengst í því að reyna að gera Rapyd á Íslandi að sökudólg átakanna beini kröftum sínum í raunverulegri baráttu fyrir friði og betri veröld. Slíkt vinnst ekki með sniðgöngu á aðilum sem ekkert hafa sér til sakar unnið.

Höfundur er forstjóri Rapyd á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×