Eftir jafnar upphafsmínútur tóku heimamenn í Pick Szeged völdin og náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik. Sigvaldi og félagar misstu þá þó aldrei of langt fram úr sér og munurinn var aðeins tvö mörk þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 15-13.
Gestirnir í Kolstad byrjuðu síðari hálfleikinn vel og jöfnuðu metin snemma áður en slæmur kafli tók við og heimamenn náðu fjögurra marka forskoti á ný. Sigvaldi og félagar unnu sig aftur inn í leikinn og jöfnuðu metin í stöðunni 23-23 áður en liðið náði forystunni í stöðunni 24-25 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.
Það voru þó heimamenn sem reyndust sterkari á lokakaflanum og niðurstaðan varð því tveggja marka sigur Pick Szeged, 29-27.
Sigvaldi var markahæsti maður vallarins með átta mörk fyrir Kolstad sem situr í sjöunda sæti A-riðils með níu stig eftir ellefu leiki, fjórum stigum á eftir Pick Szeged sem situr í fimmta sæti og einu stigi frá sjötta sætinu sem gefur sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.