Skoðun

Ís­lenskur há­skóla­stúdent gefur ís­lensku séns

Einar Geir Jónasson skrifar

Frá því að ég var lítill hef ég alltaf haft áhuga á landafræði, þá fyrst og fremst fjölbreytileika þjóðanna. Einn mikilvægasti þáttur fjölbreytileikans er tungumál hverrar þjóðar. Íslensk tunga er eitthvað sem við getum verið stolt af vegna þess að hún er gömul, falleg og stundum erfið og þar með skemmtilegri. Ef allir í heiminum töluðu sama tungumálið og önnur svæðisbundin mál myndu deyja út væri minna gaman. Enginn fjölbreytileiki og margt minna til umræðu. Sjálfur hef ég ferðast mikið utanlands og kynnst á þeim ferðum mörgum sem tala mismunandi mál. Fátt finnst mér skemmtilegra en að bera saman mál mitt og annarra og kenna mitt eigið mál. Sjálfur hef ég lagt stund á nám í þýsku og rússnesku og eykur það áhuga og kunnáttu á eigin máli.

Á Íslandi eru margir ferðamenn sem skilja íslensku að engu leyti en til þess að þeir geti fengið nauðsynlegar leiðbeiningar þarf að hafa leiðbeiningar, skilti, matseðla o.s.frv. á ensku eða öðrum málum. Þessi hefð hefur aukist og hafa of margir alfarið hætt að hafa leiðbeiningar á íslensku og sumir haft hana með en þá sem annað mál og í minna letri. Það hlýtur að teljast til almennra mannréttinda að hafa aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum á opinbera tungumálinu í sínu í eigin landi.

Sjálfum finnst mér ekki gaman að koma á staði sem eru eingöngu ætlaðir ferðamönnum og allt á ensku, sama hvort það sé hér eða erlendis. Það gerir staðinn að einhverju sem er eins hannað fyrir ferðamenn og er þá ekkert menningarlegt gildi í staðnum lengur. Ferðamennirnir gætu allt eins verið staddir í heimalandi sínu. Þetta finnst mér ekki gaman og vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að auka veg íslenskunnar og gefa henni séns.

Til allrar hamingju er verkefnið Gefum íslensku séns búið að taka málin í eigin hendur og hefur staðið fyrir fjölda viðburða sem gefa Íslendingum og útlendingum tækifæri á að læra betur á málið. Þar má nefna hraðíslensku þar sem móðurmálshafi talar við nemanda eða áhugamann á íslensku og kynnist honum þannig á íslensku. Fyrir utan það að kynnast fólki gefur Gefum íslensku séns manni mikið þar sem maður eykur eigin kunnáttu með því að kenna hana. Það hjálpar til við að auka íslenskunotkun þar sem hún lýtur í lægra haldi og af fenginni reynslu eru allir jákvæðir fyrir því.

Ég veit um marga sem hafa áhuga á að læra íslensku en hafa ekki tök á að sækja námskeið en Gefum íslensku séns hefur einmitt staðið fyrir ókeypis íslenskunámskeiðum og með örfáum námskeiðum bætist kunnáttan mikið. Sjálfur hef ég reynslu af tungumálanámskeiðum sem gefa manni mikið á stuttum tíma. Gefum íslensku séns hefur því stórbætt samfélagið með því að auka notkun og kunnáttu á máli okkar auk þess að koma fólki með ólíkan bakgrunni saman.

Höfundur er háskólanemi.

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×