Fótbolti

Segir að bláu spjöldin hefðu breytt leiknum í villta vestrið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp var fegin að bláu spjöldin væru enn bara hugmynd í gær.
Jürgen Klopp var fegin að bláu spjöldin væru enn bara hugmynd í gær. Justin Setterfield/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að ef nú þegar væri búið að taka upp notkun bláu spjaldann í ensku úrvalsdeildinni hefði leikur Liverpool og Burnley í gær breyst í villta vestrið.

Bláu spjöldin hafa verið í umræðunni undanfarna daga, en hugmyndir um upptöku þeirra liggja fyrir. Leikmenn geta þá nælt sér í blátt spjald fyrir kjaftbrúk og taktísk brot, og að launum þyrftu þeir að fara í kælingu utan vallar í tíu mínútur.

Fimm leikmenn fengu að líta gula spjaldið í leik Liverpool og Burnley í gær sem endaði með 3-1 sigri Liverpool. Jürgen Klopp og Vincent Kompany, þjálfarar liðanna, fengu einnig að líta gul spjöld.

„Þetta var tilfinningaþrunginn leikur,“ sagði Klopp er hann var spurður út í fjölda gulra spjalda í leiknum.

„Ímyndið ykkur þennan leik ef dómararnir hefðu verið með blá spjöld. Þá hefði þetta verið eins og villta vestrið. Það voru svo mörg gul spjöld.“

Eins og áður segir fékk Klopp að líta gula spjaldið í leiknum, en það fékk hann fyrir mótmæli eftir að leikurinn var látinn halda áfram í kjölfar þess að Diogo Jota var tekinn niður innan vítateigs Burnley.

„Ég hef ekki hugmynd af hverju Kompany fékk gult. Ég missti aðeins stjórn á mér á þessu augnabliki þannig allt í góðu, gefðu mér gult. Svo lengi sem ég fær ekki blátt og þurfi að sitja einhversstaðar annars staðar í tíu mínútur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×