Fótbolti

KSÍ missti af meira en milljarði króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson í leiknum mikilvæga á móti Úkraínu í Varsjá í Póllandi í nóvember.
Albert Guðmundsson í leiknum mikilvæga á móti Úkraínu í Varsjá í Póllandi í nóvember. Getty/Ernest Kolodziej

Knattspyrnusamband Íslands varð af mjög stórum fjárhæðum þegar íslenska karlalandsliðinu í fótbolta mistókst að tryggja sér sæti á HM karla í fótbolta í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Nú hefur verið staðfest hvernig verðlaunaféð skiptist næsta sumar og hvað er í boði fyrir þátttökuþjóðirnar af heildarhagnaði FIFA af mótinu.

Stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að öll lönd sem taka þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó séu tryggð að lágmarki níu milljónir dollara, sem jafngildir rúmlega 1,1 milljarði íslenskra króna.

Auk þess fá liðin 186 milljónir króna í styrk til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið.

Níu milljónir dollara fara til hvers þeirra liða sem enda í sætum 33 til 48 á mótinu, það er komast ekki upp úr sínum riðli.

Ef viðkomandi þjóð kemst áfram í útsláttarkeppnina bíða þeirra tvær milljónir dollara til viðbótar eða 253 milljónir króna. Þaðan í frá fara upphæðirnar stigvaxandi. Heimsmeistararnir munu fá fimmtíu milljónir dollara í heildina eða meira en 6,3 milljarða króna.

Að sögn FIFA hafa landsliðin aldrei fengið meiri peninga og segja þeir að um fimmtíu prósenta aukningu sé að ræða frá fyrri mótum. Alls deila þeir út 655 milljónum dollara, sem jafngildir um 83 milljörðum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×