Fótbolti

Segja Tottenham og Newcastle hafa á­huga á Alberti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Albert Guðmundsson virðist ætla að verða eftirsóttur biti í sumar.
Albert Guðmundsson virðist ætla að verða eftirsóttur biti í sumar. Gabriele Maltinti/Getty Images

Ensku úrvalsdeildarfélögin Tottenham og Newcastle hafa áhuga á því að fá íslenska landsliðsmanninn Albert Guðmundsson í sínar raðir í sumar ef marka má fréttir frá Ítalíu.

Það er ítalski miðillinn Calciomercato sem greinir frá því að ensku liðin hafi áhuga á Alberti, en Albert er í dag leikmaður ítalska félagsins Genoa. Albert hefur verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í liði Genoa á tímabilinu þar sem hann hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur tvö fyrir liðsfélaga sína.

Framtíð Alberts hefur verið á milli tannana á fólki undanfarnar vikur og mánuði og hefur hann verið orðaður við hin ýmsu stórlið á Ítalíu. Þar hafa lið á borð við AC Milan og Juventus verið nefnd til sögunnar, en í félagsskiptaglugganum í janúarleit helst út fyrir að hann gæti verið á leið til Fiorentina. 

Þó varð ekkert úr þeim vistaskiptum þar sem Fiorentina var ekki tilbúið að greiða uppsett verð fyrir leikmanninn. Genoa er sagt vilja fá í það minnsta 30 milljónir evra fyrir Albert, sem samsvarar tæpum fjórum og hálfum milljarði króna. 

Nú eru félög í ensku úrvalsdeildinni einnig sögð ætla að blanda sér í baráttuna um Albert og verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast.

Alls hefur Albert leikið 67 deildarleiki fyrir Genoa og skorað í þeim 21 mark. Þá hefur hann einni leikið fyrir AZ Alkmaar og PSV í Hollandi, en hann á einnig að baki 35 leiki fyrir íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×