Fótbolti

„Ætla ekki að vera inni á skrif­stofu KSÍ milli níu og fimm alla daga“

Aron Guðmundsson skrifar
Vignir Már Þormóðsson býður sig fram til formanns KSÍ.
Vignir Már Þormóðsson býður sig fram til formanns KSÍ. Aðsend

Vignir Már Þor­móðs­son, sem hefur yfir að skipa mikilli reynslu af störfum innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar, hefur á­kveðið að bjóða sig fram til formanns KSÍ á komandi árs­þingi sam­bandsins. 

Vignir segir um að ræða stóra á­kvörðun fyrir sig, hann vill gera á­kveðnar breytingar á em­bætti formanns, taka á rekstri sam­bandsins og ein­blína á að byggja Laugar­dals­völl upp í skrefum. Hverfa frá of stórum draumum varðandi byggingu nýs þjóðar­leik­vangs.

„Mér finnst þetta stór á­kvörðun,“ segir Vignir í sam­tali við Vísi að­spurður um á­kvörðun sína um að bjóða sig fram til formanns KSÍ á komandi árs­þingi sam­bandsins.. „Þetta er stórt og á­byrgðar­mikið em­bætti. Ég hugsaði mig því vel um og tel mig, með reynslu mína, til­búinn í þetta. Ég á að baki tólf ára stjórnar­tíð hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Ís­lands frá fyrri tíð og bý þá einnig að reynslu úr gras­rótar­hreyfingunni hjá mínu fé­lagi, KA.

Auð­vitað hefur maður einnig þurft að hugsa þetta vel og vand­lega fjöl­skyldunnar vegna. Ég bý á Akur­eyri. Það er að mörgu að hyggja í þessu. Þessi á­kvörðun snerist kannski mikið að spurningunni hvað ætlarðu að gera við líf þitt. Ég hef mikla ást­ríðu fyrir því að vinna fyrir fót­boltann á­fram.“

Býr að margra ára reynslu

Vignir sat í aðal­stjórn KSÍ á árunum 2007 til 2019 og var áður for­maður knatt­spyrnu­deildar KA í tæp 7 ár. Þá hefur hann síðustu tíu ár verið starfandi eftir­lits­maður knatt­spyrnu­leikja á vegum UEFA, Knatt­spyrnu­sam­bands Evrópu.

Hann segist klár­lega búa að sinni margra ára reynslu af störfum innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar, fari svo að hann hljóti kjör í em­bætti formanns KSÍ.

„Það er þó alveg ljóst líka að ég á eftir að læra fullt. Það er svo­lítið annað að vera for­maður KSÍ heldur en stjórnar­maður. Ég hef starfað í fullt af nefndum innan sam­bandsins, var til að mynda for­maður móta­nefndar og sit enn í þeirri nefnd. Ég bý því að ýmsu en geri mér líka grein fyrir því að ég á margt eftir ó­lært. Hjá KSÍ búum við að góðu starfs­fólki og til margra myndi ég geta leitað til. Ég er ó­hræddur við það.“

Vill kafa ofan í reksturinn og koma á breytingum á em­bætti formanns

Í fram­boðs­yfir­lýsingu Vignis, sem send var fjöl­miðlum í morgun, stiklar hann á stóru varðandi sýn sína varðandi knatt­spyrnu­hreyfingarinnar, hlut­verk og á­byrgð KSÍ. Hver telur hann vera brýnustu verk­efnin fram undan hjá Knatt­spyrnu­sam­bandi Ís­lands?

„Brýnustu verk­efnin sem blasa við okkur núna snúa meðal annars rekstri sam­bandsins. Það stefnir allt í að reksturinn sé nei­kvæður, að af­koman sé nei­kvæð. Við þurfum þar af leiðandi að skoða reksturinn og kafa djúpt í hann svo við náum á­kveðnu jafn­vægi aftur í hann. Rekstur KSÍ þarf að vera sjálf­bær. Við verðum virki­lega að skoða þetta. Ég vil bara velta steinum, skoða málin náið. Ég held að það sé hollt. Sam­vinna, sam­starf og sam­hugur í hreyfingunni er mér mikil­vægur.“

Þá fer Vignir einnig fram með þá sýn að verka­skipting formanns og fram­kvæmda­stjóra KSÍ verði að vera skýr.

„Verka­skipting milli formanns og fram­kvæmda­stjóra hefur svo sem verið skrifuð niður. Ég sé þetta fyrir mér þannig að em­bætti formanns stjórnar KSÍ þróist í þá átt að verða líkari starfi stjórnar­for­manns í fyrir­tæki. Samt þó á þann veg að það er öðru­vísi að vera for­maður KSÍ heldur en fyrir­tækja. Því KSÍ er fjölda­hreyfing og for­maður sam­bandsins þarf að vera sýni­legur hingað og þangað, sinna þessu vel.“

Fyrir utan höfuðsstöðvar KSÍ í LaugardalnumVísir/Vilhelm Gunnarsson

„Ég get alveg sagt eins og er að ég ætla ekki að vera inni á skrif­stofu KSÍ milli níu og fimm alla daga. Auð­vitað myndi ég verða fullt niðri í höfuð­stöðvum KSÍ, myndi sinna öllu því sem þyrfti að sinna og meira til, en ég vil einnig vera á ferðinni. Það á hins vegar að vera þannig að fram­kvæmda­stjóri sam­bandsins, og teymið í kringum hann, á að stjórna skrif­stofunni. Þetta held ég að sé mjög mikil­vægt. Það hefur verið talað um þetta áður í kosningum til em­bættis formanns KSÍ. Það er alveg klárt mál að ég myndi standa við þetta.

Varðandi laun formanns. Ég sé fyrir mér að inn­leiðing þessarar hug­myndir myndi taka smá tíma. Ég myndi því þiggja laun sem for­maður, eins og verið hefur, að minnsta kosti fyrsta ár mitt í em­bætti. En myndi svo vilja snúa þessu fyrir lok kjör­tíma­bilsins í þá átt launin yrðu ekki full laun hjá for­manni sam­bandsins. Það yrði þá eitt­hvað sem kjara­nefnd KSÍ myndi á­kveða eftir verka­skiptingu og öðrum þáttum.“

Bjartir tímar fram undan

Hvernig finnst honum þróunin hafa verið hjá KSÍ undan­farin ár?

„Það hefur verið svo­lítið ský yfir okkur í ýmsum málum. Ég held að það séu klár­lega bjartari tímar fram undan. Það hefur verið tekið á á­kveðnum málum og mörg hver þeirra eru komin í á­kveðið ferli.

Það eru ýmis teikn á lofti sem gefa fyrir­heit um bjarta tíma. Deildar­keppnin hér heima og breytingarnar sem hafa verið gerðar á henni hafa, að ég tel, verið til góða. 

Við erum að sjá fleiri leiki leikna og vonandi förum við svo að sjá meiri spennu í efstu deildunum næsta haust. Það er margt bjart fram undan. Meðal annars hjá lands­liðunum sem eru stolt þjóðarinnar, við megum ekki gleyma því.“

Farið hefur verið í veigamiklar breytingar á mótafyrirkomulagi í efstu deildum hér heima undanfarin ár

Ó­tækt á­stand og Ís­lendingum ekki til sóma

Eitt af þrætu­eplunum tengt KSÍ og fót­boltanum hér í landi undan­farin ár snýr að þjóð­var­leik­vangi okkar Ís­lendinga, Laugar­dals­velli, sem er úr sér genginn og stenst ekki þær nú­tíma­kröfur sem gerðar eru til leik­vanga. Keppnis­dögum lands- og fé­lags­liða fjölgar nær ár frá ári og eru farnir að teygja sig inn í vetrar­mánuðina og þar er ó­upp­hitaður Laugar­dals­völlur ekki fýsi­legur kostur.

Vignir er með skýra sýn á mál­efni Laugar­dals­vallar.

„Þetta er náttúru­lega al­gjör­lega ó­tækt á­stand og okkur Ís­lendingum ekki til sóma. Ég hef starfað í eftir­liti á leikjum á vegum Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins undan­farin tíu ár og hef farið á marga fót­bolta­leiki, og þar með leik­vanga, víðs vegar um Evrópu.“

Hitapulsan hefur verið tíður gestur á Laugardalsvelli.mynd/stöð2

„Við verðum að gera eitt­hvað í þessu. Yfir­völd verða að bregðast við. Mín skoðun í þessu máli er sú að við verðum að fara og setja okkur niður með Laugar­dals­völl og á­kveða það hvernig við ætlum að byggja hann upp í skrefum. Ég er á því að Laugar­dals­völlur eigi að vera okkar þjóðar­leik­vangur. Ég sé ekki fyrir mér, eins og hefur kannski verið of miklu púðri eytt í, að þetta verði 20-30 þúsund manna yfir­byggður völlur sem verður einnig hugsaður í eitt­hvað annað en fót­bolta, til að mynda tón­leika­hald.

Ég sé Laugar­dals­völl sem tíu til fjór­tán þúsund manna völl en fyrst og fremst þurfum við að fá á hann yfir­borð, hybrid gras sér maður fyrir sér, með undir­hita og betri búnings­her­bergja að­stöðu. Það er bara fyrsta skref í ein­hverjum fösum sem við þurfum að leggja fyrir og reyna fá yfir­völd með okkur í lið til þess að þróa völlinn á­fram. Það er mjög mikil­vægt að við náum samningum um þetta fyrsta skref, bæði fyrir lands- og fé­lags­liðin okkar sem hafa ekki völl í dag sem stenst allar þær kröfur sem gerðar eru til leik­staða. Við þurfum að taka þetta í skrefum og vera ekki með of stóra drauma.“

Veit alveg hvað bítur

Eins og áður hefur komið fram er Vignir lands­byggðar­maður, bú­settur á Akur­eyri og þekkir vel starf aðildar­fé­laga á lands­byggðinni. Hann horfir já­kvæðum augum á sam­starf KSÍ við aðildar­fé­lögin úti á landi.

„Ég er á því að sam­skipti aðildar­fé­laganna úti á landi við knatt­spyrnu­sam­bandið séu yfir­leitt alltaf mjög góð. Þetta er náttúru­lega alltaf spurningin um að stuðla að per­sónu­legum sam­skiptum og annað slíkt. Ég held að sam­bandið þjónustu fé­lögin úti um allt land vel. Það hafa kannanir líka sýnt. Það má þó alltaf gera betur.

Á­hyggju­efnið er hins vegar fólks­fækkun í sumum lands­hlutum og því miður fækkar fé­lögum og það er á­hyggju­efni eins og til að mynda fyrir austan. Það er meira um sam­einingar. Það er meðal annars á­kveðið vanda­mál gagn­vart móta­málum og hefur í för með sér enn þá fleiri ferða­lög til þess að sækja í leiki. Ég er lands­byggðar­maður og mun alveg leggja mikla á­herslu á að rækta sam­bandið við fé­lögin úti á landi. Ég veit alveg hvað bítur í því starfi að reka slík fé­lög.“

Snörp kosninga­bar­átta

Fram­bjóð­endurnir til formanns KSÍ eru nú orðnir þrír en auk Vignis hafa þeir Guðni Bergs­son og Þor­valdur Ör­lygs­son einnig lýst yfir fram­boði sínu. Frestur til fram­boðs rennur út á morgun og stutt er í árs­þing sam­bandsins sem verður haldið síðar í mánuðinum.

Hvernig kosninga­bar­áttu býst þú við? Þetta verður ansi snarpt hjá ykkur.

„Já. Auð­vitað kem ég seint inn í þetta. Það er hálfur mánuður til stefnu. Ég held að þetta verði bara fínt. Ég þekki marga innan hreyfingarinnar og suma þekki ég bara ekki neitt og þarf að kynnast. Ég mun vera í nánu sam­bandi við fé­lögin í landinu og í grunninn snýst þetta um þau og fólkið sem starfar innan þeirra. Það eru full­trúar aðildar­fé­laganna sem kjósa um for­mann og stjórn KSÍ á árs­þinginu og hjá þeim mun ein­beiting mín liggja næstu tvær vikurnar. Að vera í sam­bandi við fólkið sem stendur í stafni aðildar­fé­laganna og kynna mín mál.“


Tengdar fréttir

Vignir verður með í for­manns­slagnum

Nú er orðið ljóst að hið minnsta þrír bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands á ársþinginu sem fram fer eftir rúmar tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×