„Þetta var eins góð staða og maður hefði getað óskað sér,“ sagði Víðir í viðtali á RÚV í aukafréttatíma þeirra í morgun.

Hann sagði að mögulega myndi reyna á varnargarðana en að það myndi koma í ljós. Þá sagði hann sömuleiðis að viðbragðsaðilar væru búnir að leita af sér allan grun í bænum og að það ætti enginn að vera þar núna.
Skásta sem hefði getað gerst
Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík sagði það létti hversu langt frá bænum sprungan er. Hraunrennslið virðist ekki ógna bænum eða Grindavíkurvegi eins og stendur. Hann sagði þetta og það skásta sem þau hefðu getað búist við.

„Ég held það sé ekkert hægt að leyfa sér einhverja sérstaka bjartsýni,“ sagði Fannar í viðtali við RÚV í aukafréttatíma þeirra klukkan 9 um það hvort að hægt sé að búa áfram í bænum. Það sé búið að gjósa núna á mánaðarfresti og staðan sé ekki góð.
Hann sagði bæjaryfirvöld fylgjast vel með því sem vísindamenn segja.
„Miðað við þetta munstur sem er í gangi en er útlitið ekki sérstaklega bjart,“ sagði Fannar og að það væri óvíst hvort þessu væri lokið.
Hann sagði ánægjulegt að engin slys hafi orðið á fólki og að hraunið væri fjærri bænum en síðast. Innviðir virðist öruggir.