Þetta hefur fengist staðfest hjá talsmönnum Harry og eiginkonu hans Meghan Markle. Harry er sagður munu fara einn til Bretlands en Meghan verða um kyrrt hjá börnum þeirra Archie og Lilibet.
Samkvæmt breskum miðlum hafði Karl persónulega samband við syni sína, Harry og Vilhjálm, og upplýsti þá um greininguna. Þá greindi hann einnig systkinum sínum; Önnu, Andrési og Játvarði, frá tíðindunum.
Krabbameinið uppgötvaðist þegar Karl var lagður inn á sjúkrahús til að gangast undir meðferð vegna stækkaðs blöðruhálskirtils. Meinið er þó ekki í blöðruhálskirtlinum en Buckingham-höll hefur ekki gefið upp um hvers konar krabbamein er að ræða.
Konungurinn var útskrifaður og mætti til messu í Sandringham á sunnudag en snéri aftur til Lundúna í gær til að hefja meðferð við krabbameininu. Hann mun gangast undir meðferðina heima og sinna störfum sínum áfram. Opinberum heimsóknum og viðburðum hefur þó verið frestað.
Karl hefur almennt verið við góða heilsu, fyrir utan bakverki sem má líklega rekja til ófárra falla af hestbaki. Konungurinn stundaði póló í meira en 40 ár og braut nokkur bein við íþróttaiðkunina. Þá braut hann bein við refaveiðar og fingur við garðyrkjustörf.
Árið 2008 var vöxtur fjarlægður af nefi konungsins en ekki reyndist um krabbamein að ræða. Þá gekkst hann undir aðgerð vegna kviðslits árið 2003. Karl fékk Covid í mars 2020, áður en byrjað var að bólsetja fyrir pestinni, en veiktist ekki alvarlega. Hann smitaðist aftur árið 2022 en var þá þríbólusettur.