Körfubolti

Maté: Eins og lé­legur dómari í Bestu deildinni

Dagur Lárusson skrifar
Maté Dalmay
Maté Dalmay Vísir / Anton Brink

Maté Dalmay, þjálfari Hauka, var ekki parsáttur með dómgæsluna eftir tap síns liðs gegn Keflavík í Subway-deild karla í kvöld.

„Mér finnst þetta ótrúlega leiðinlegt. Fyrri hálfleikurinn var skemmtilegur og leikurinn fékk að flæða en seinni hálfleikurinn var bara einhver sirkus,“ byrjaði Maté Dalmay, þjálfari Hauka, að segja eftir leik.

„Við eigum góða spretti í fyrri hálfleik bara svona eins og flest góð körfuboltalið eiga. Við erum að ná stoppum og náum að hlaupa með þeim og hafa gaman og setja eitt og eitt skot.“

Maté talaði síðan um dómgæsluna í seinni hálfleiknum en hann vildi meina að hún hafi skemmt leikinn.

„Í þriðja leikhluta þá voru svona tíu til fimmtán atvik sem hefðu getað farið í báðar áttir en þau fóru til þeirra. Oft þar sem engin sá hvað var verið að dæma á og ekki einu sinni Keflvíkingar. Þeir svosem vældu yfir öllu en þeir sáu einu sinni ekki hvað var verið að dæma á í þessum atvikum,“ hélt Maté áfram að segja.

„Það er mjög erfitt að komast á flug þegar það er alltaf verið að flauta og alltaf verið að stöðva leikinn. Svona eins og þegar lélegur dómari í Bestu deildinni í fótbolta er alltaf að dæma eitthvað rugl og það er alltaf verið að taka þessar litlu aukaspyrnur inn á miðjunni. Mér leið þannig, þetta var bara flautusirkus,“ endaði Maté á að segja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×