Viðskipti innlent

Tekur við sem for­stjóri CRI

Atli Ísleifsson skrifar
Lotte Rosenberg.
Lotte Rosenberg. Aðsend

Lotte Rosenberg hefur verið ráðin í stöðu forstjóra íslenska hátæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) og Björk Kristjánsdóttir, sem sinnt hefur starfi tímabundins forstjóra frá 2022, hefur tekið við nýrri stöðu framkvæmdastjóra rekstrar- og fjármálasviðs hjá félaginu.

Í tilkynningu segir að Lotte hafi yfirgripsmikla reynslu innan orkuiðnaðarins og hafi áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá dönsku félögunum Ørsted, stærsta vindorkufyrirtæki heims, og Nature Energy sem selt var til Shell á síðasta ári. 

„Síðast starfaði hún sem forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins WPU, sem sérhæfir sig í endurnýjun plastúrgangs yfir í olíu. Hjá fyrri félögum leiddi Lotte stefnumótandi vöxt, þróun alþjóðlegs samstarfs og uppbyggingu starfsstöðva í Evrópu og Norður-Ameríku. Mun reynsla hennar nýtast við frekari vöxt CRI,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að félagið hafi á undanförnum tveimur árum unnið að stórum stórum alþjóðlegum verkefnum en í Kína hafi verið gangsettar tvær stærstu verksmiðjur sinnar tegundar sem séu byggðar á tækni og búnaði frá CRI. „Þær nýta fangaðan koltvísýring sem hráefni til framleiðslu metanóls með lágu kolefnisspori. Einnig skrifaði félagið nýlega undir samstarf við þýska félagið P1 Fuels um afhendingu á framleiðslubúnaði og þjónustu við uppsetningu á rafeldsneytisverksmiðju í Þýskalandi.“

Ennfremur segir að Björk hafi leitt 30 milljón bandaríkjadala fjárfestingarlotu á síðasta ári. „Equinor Ventures var leiðandi fjárfestir en ásamt þeim fjárfestu Gildi, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Sjóvá í félaginu. Meðal annarra fjárfesta eru Methanex, Geely, Eyrir Invest, Norræni fjárfestingarbankinn (NEFCO), aðrir fjárfestar og einstaklingar.“

Þá segir að Carbon Recycling International hafi frá árinu 2006 þróað Emissions-to-Liquids (ETL) tæknina til framleiðslu á grænu eldsneyti og efnavöru úr koltvísýringi. „Tæknin hefur nú verið nýtt í stærstu verksmiðjur sinnar tegundar sem gangsettar hafa verið á síðustu tveimur árum. Félagið býður þannig upp á viðamikla þjónustu fyrir viðskiptavini sína, allt frá afhendingu tæknipakka og búnaðar og til stuðnings í þróun stærri verkefna í nýtingu koltvísýrings til framleiðslu metanóls. Með þróun og uppsetningu á tæknilausn sinni hefur CRI skapað sér leiðandi stöðu á alþjóðamarkaði fyrir grænar tæknilausnir sem endurnýta koltvísýring. CRI hefur nú þegar gert viðskiptavinum félagsins kleift að endurnýta yfir 300.000 tonn af koltvísýringi árlega til framleiðslu á vistvænu metanóli sem nýta má í efnavöru og sem eldsneyti,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×