Viðskipti innlent

Heimkaup hömstruðu ekki pokana heldur keyptu

Árni Sæberg skrifar
Myndin til vinstri er frá áhyggjufullum neytanda en sú hægra megin er hluti af fréttatilkynningu Heimkaupa, sem átti fyrir tilviljun að fara út í dag. Á henni má sjá Katrínu, framkvæmdastjóra markaðsmála.
Myndin til vinstri er frá áhyggjufullum neytanda en sú hægra megin er hluti af fréttatilkynningu Heimkaupa, sem átti fyrir tilviljun að fara út í dag. Á henni má sjá Katrínu, framkvæmdastjóra markaðsmála. Vísir

Einhverjum neytendum brá þegar þeir fengu ávexti og grænmeti frá Heimkaupum afhent í bréfpokum, sem ætlaðir eru lífrænum úrgangi. Sumir töldu jafnvel að fyrirtækið hefði staðið í hamstri á pokunum, sem leiddi til þess að þeir voru fjarlægðir úr verslunum. Heimkaup kaupa pokana hins vegar dýrum dómi í nafni umhverfisverndar.

Netverji nokkur að nafni Hólmfríður vakti athygli á breytingunni á samfélagsmiðlinum X í fyrradag. Þar sagði hún að þeir sem hafa áhyggjur af pokamálum þyrftu ekki að hafa þær lengur, versluðu þeir við Heimkaup.

„Ótrúleg hegðun,“ sagði annar netverji og málhefjandi sagði markaðinn sjá um sína.

Veita pokunum fyrra líf

Vísir hafði samband við Heimkaup vegna þessa og Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsmála, hrakti vangaveltur um hamstur fyrirtækisins. Hún segir hugmynd hafa komið upp fyrir nokkrum dögum, um að kaupa poka af Íslenska gámafélaginu og senda ávexti og grænmeti í þeim.

Þannig væri verið að slá tvær flugur í einu höggi, koma matvörum heim til fólks ásamt poka sem gæti þá nýst í flokkun úrgangs. 

Hingað til hafi Heimkaup sent ávexti og grænmeti frá sér í litlum þunnum bréfpokum, sem oftar en ekki enduðu í pappírsruslinu hjá viðskiptavinum.

„Við sáum bara smá svona win-win með þessari hugmynd.“

Talsvert dýrari pokar

Sem áður segir notaði fyrirtækið áður þunna og litla brúna pappírspoka en pokarnir frá Íslenska gámafélaginu eru, eins og flestir vita þykkir og sterkir. 

Eru þessir pokar ekkert dýrari en hinir?

„Þessir pokar eru dýrari en hinir pokarnir, ekki spurning. En þetta er partur af umhverfismálunum hjá okkur. Að reyna að finna leiðir til gera vel í þeim málum, hvort sem það eru litlar hugmyndir eins og þessi eða stærri. Og líka auðvitað að auka þægindi fyrir fólk.“

Þar vísar Katrín til þess að uppátæki Heimkaupa gæti sparað fólki einhverjar ferðir í Sorpu, þar sem pokarnir eru nú aðeins fáanlegir á þeim bænum.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Íslenska gámafélagið selur Heimkaupum pokana en ekki Sorpa, eins og upphaflega var ritað.


Tengdar fréttir

Bréfpokar undir matarleifar ekki lengur í verslunum

Frá og með morgundeginum mun Sorpa hætta dreifingu bréfpoka undir matarleifar í verslunum. Áfram geta íbúar sótt bréfpokana endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvum Sorpu og í verslun Góða hirðisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×