Lífið

Nektar­myndir af Swift skapaðar af gervi­greind í dreifingu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Swift er ein af mörgum Hollywood stjörnum sem orðið hefur fyrir barðinu á djúpfölsun. 
Swift er ein af mörgum Hollywood stjörnum sem orðið hefur fyrir barðinu á djúpfölsun.  EPA

Klámfengnar myndir af bandarísku poppstjörnunni Taylor Swift, sem skapaðar voru af gervigreind, dreifðust eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla á dögunum. Þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjanna hafa síðan gert ákall eftir löggjöf gegn fölsuðu myndefni af þessu tagi. 

Myndunum var dreift um samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, og áætlað er að tugir milljóna hafi séð þær áður en þær voru fjarlægðar af miðlinum.

Yvette D. Clark, þingkona demókrata í New York tjáði sig um málið á X. Hún sagði djúpvölsun vera vandamál sem sé ekki nýtt af nálinni. Í mörg ár hafi konur gerst fórnarlömb djúpfalsaðs myndefnis og með framförum í gervigreindartækni verði gerð slíkra falsana sífellt einfaldari og ódýrari.

Taylor Swift hefur enn ekki tjáð sig um myndirnar og ekki liggur fyrir hver eða hvaða forrit er á bak við gerð þeirra.

Í níu ríkjum í Bandaríkjunum hafa þegar verið sett lög sem banna sköpun eða deilingu á djúpfölsuðu myndefni án samþykkis viðkomandi. Með máli Swift hefur þrýstingur þingmanna á breytingar á sambandslögum Bandaríkjanna um djúpfölsun aukist. 

Í maí 2023 kynnti Joseph Morelle, þingmaður demókrata í New York, fyrirhugað lagafrumvarp sem fólst í að gera dreifingu á djúpfölsuðu klámi ólöglega. Hann sagði slíka dreifingu geta valdið óafturkræfum tilfinningalegum og fjárhagslegum skaða og skaða á orðspori. 

Morelle lýsti máli Swift á X í gær sem kynferðislegri misnotkun. Frumvarp hans um djúpfalsaðar myndir hafa enn ekki orðið að lögum. Tom Kean Jr, þingmaður Repúblikana í New Jersey, tók undir orð Morelle á X og er einn talsmanna frumvarpsins. 

Umfjöllun The Guardian um málið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×