Bareinska liðið byrjaði betur í leik dagsins og náði fljótt ágætis tökum á leiknum. Mest náði liðið fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum var þó ekki nema tvö mörk þegar flautað var til hálfleiks, staðan 11-9, Barein í vil.
Japanska liðið skoraði fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks og jafnaði þar með metin, en Barein virtist þó vera skrefinu framar lengst af í seinni hálfleik. Það var ekki fyrr en í stöðunni 17-16, Barein í vil, að leikurinn snérist algjörlega. Japanska liðið skoraði þá seinustu fjögur mörk leiksins og vann að lokum þriggja marka sigur, 20-17.
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans eru þar með á leið í úrslit Asíumótsins þar sem liðið mætir Katar, en Aron Kristjánsson og lærisveinar hans frá Barein mæta Kúveit í leik um bronsið.