Viðskipti erlent

Norsk stjórn­völd veita 62 ný leyfi til olíu­leitar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó, einu nýjasta og verðmætasta vinnslusvæði Norðmanna.
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó, einu nýjasta og verðmætasta vinnslusvæði Norðmanna. Mynd/Equinor, Espen Rønnevik og Øyvind Gravås.

Olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Terje Aasland, hefur tilkynnt um útgáfu 62 nýrra sérleyfa til olíuleitar á norska landgrunninu. Þetta er mesti fjöldi leyfa í fjögur ár og sá fimmti mesti í olíusögu Norðmanna. Í fyrra var 47 leyfum úthlutað.

„Að veita ný leyfi er forsenda þess að þróa áfram norska landgrunnið. Það er því mjög jákvætt að svo mikill áhugi sé á frekari rannsóknarstarfsemi. Það er mikilvægt fyrir atvinnu, verðmætasköpun og að tryggja að Noregur verði áfram stöðugur orkugjafi fyrir Evrópu,“ er haft eftir ráðherranum í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Tilkynnt var um leyfisveitinguna á árlegri ráðstefnu olíuiðnaðarins í fyrrum hvalveiðibænum Sandefjord við Oslóarfjörð í síðustu viku. Mótmæli gegn olíu- og gasvinnslu settu svip sinn á atburðinn og þurftu margir þátttakendur lögreglufylgd til að komast inn á ráðstefnuhótelið framhjá tugum mótmælenda sem reyndu að meina þeim inngöngu.

Terje Aasland, til vinstri, kemur úr Verkamannaflokknum. Hann tók við embætti olíu- og orkumálaráðherra fyrir tveimur árum af Marte Mjøs Persen, til hægri, sem færðist yfir í atvinnumálaráðuneytið. Forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre í miðið.Torgeir Haugaard/Forsvaret

Leyfin 62 eru veitt til 24 olíufélaga og fá 16 þeirra fleiri en eitt leyfi, sem skiptast á þrjú svæði. Flest eru í Norðursjó, 29 talsins. Í Noregshafi eru 25 ný leyfi og í Barentshafi átta leyfi.

„Í fyrra hvatti ég fyrirtækin sérstaklega til að skoða tækifærin í Barentshafi og í ár bjóðum við upp á meira en tvöfalt fleiri vinnsluleyfi þar en í fyrra. Það sýnir að nokkur fyrirtæki hafa brugðist jákvætt við þessu og eru meðvituð um samfélagslega ábyrgð sína. Að sýna fram á fleiri gasauðlindir er mikilvægt fyrir arðsemi með því að auka gasútflutningsgetu í Barentshafi,“ segir Terje Aasland.

Flokkarnir tveir sem mynda minnihlutastjórn Noregs, Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn, eru samstíga í þeirri stefnu að olíu- og gasvinnslu landsins verði haldið stöðugri. Olíu- og orkumálaráðherrann segir að til að forðast hratt fall eftir árið 2030 þurfi að halda áfram rannsóknum. Norska olíu- og gasframleiðslan muni engu að síður minnka af eðlilegum ástæðum.

Frá Ekofisk-svæðinu í Norðursjó þar sem fyrsta olíulind Norðmanna fannst rétt fyrir jólin 1969. Áætlað er að svæðið muni endast að minnsta kosti til ársins 2050.Mynd/Equinor.

Ráðherrann bendir á að einnig verði að fjárfesta í annars konar orku á norskum hafsvæðum, eins og vindorku á hafinu. En fyrst um sinn sé olían lykilatriði.

„Olía og gas eru og verða grunnurinn á norska landgrunninu um fyrirsjáanlega framtíð,“ segir Aasland.

Þótt 54 ár séu liðin frá því tilkynnt var um fyrsta olíufundinn á landgrunni Noregs virðist ekkert lát á norska olíuævintýrinu. Nýjar olíu- og gaslindir finnast á hverju ári og sumar risastórar, eins og Johan Sverdrup-svæðið í Norðursjó. Þar hófst olíuvinnsla formlega fyrir fjórum árum, eins og fjallað var um í þessari frétt Stöðvar 2 í janúar árið 2020:


Tengdar fréttir

Fimmtíu ár frá upphafi norska olíuævintýrisins

Það var á Þorláksmessu árið 1969 sem ráðamenn Phillips-olíufélagsins hringdu í norska iðnaðarráðuneytið og tilkynntu um að þeir hefðu fundið olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×