Segja má að frábær fyrri hálfleikur hafi lagt grunninn að sigri Þórsara en heimaliðið var 19 stigum yfir í hálfeik. Þann mun náðu gestirnir úr Garðabæ ekki að vinna upp og því er það Þór Ak. sem er komið í undanúrslit bikarkeppninnar.
Lore Devos var mögnuð í sigurliðinu. Hún skoraði 30 stig, tók 14 fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hulda Ósk Bergsteinsdóttir var einnig frábær í liði Þórs en hún skorað 23 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu.
Í liði Stjörnunnar skoraði Kolbrún María Ármannsdóttir 26 stig og Ísold Sævarsdóttir skoraði 19 stig.
Þór Ak. er annað liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum. Fyrr í dag komst Grindavík þangað með sigri á Val. Aðrir leikir í 8-liða úrslitum eru Njarðvík gegn Hamri og Haukar gegn Keflavík.