Lítið var skorað á Hlíðarenda í kvöld en fór það svo að Snæfell vann fjögurra stiga sigur, lokatölur 58-62. Shawnta Shaw var stigahæst í sigurliðinu með 26 stig ásamt því að taka 16 fráköst. Hjá Val skoraði Brooklyn Pannell 25 stig.
Um var að ræða annan sigur Snæfells á tímabilinu og jafnar liðið nú Fjölni að stigum en bæði lið eru með tvo sigra eftir 14 leiki. Valur er svo í 7. sæti með fimm sigra og níu töp.
Haukar unnu þá 11 stiga sigur á Þór frá Akureyri, lokatölur 84-73. Keira Robinson skoraði 20 stig í liði Hauka á meðan Lore Devos skoraði 18 í liði Þórs.
Eftir sigurinn er aðeins einn sigur sem skilur liðin að. Þórsarar hafa unnið sjö af 14 leikjum sínum á meðan Haukar hafa unnið sex. Liðin eru í 5. og 6. sæti deildarinnar.