„Í augnablikinu erum við ekki að gera neitt. Við erum í biðstöðu á meðan það er verið að meta aðstæður og hvað gerist áfram. Við erum að undirbúa okkur að leita að nýjum efnistökusvæðum,“ segir Hjálmur Sigurðsson en hann er framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki.
Berghildur Erla fréttamaður okkar náði tali af Hjálm en hún er við Grindavík og gosstöðvar í dag.
Hann segir að ákveðið hafi verið að lengja varnargarðinn sem kallaður er L8, eða syðri garðurinn við Nesveg. Hann hafi fyrst verið lengdur til austurs og svo haldið áfram í vesturátt og reynt að meta hvert hraunið myndi renna.
Spurður hvað sé langt í að varnargarðarnir séu tilbúnir segir Hjálmur að það sem fyrst hafi verið lagt upp með sé nærri tilbúið.
„Næsta skref var að taka ákvörðun um að hækka þá frekar, sem var ekki búið að gera,“ segir hann og að eins og stendur séu garðarnir bara í fyrstu hæðinni. Það sé til skoðunar að bæta ofan á þá um þremur til fjórum metrum en það fari allt eftir því hvernig atburðarásin þróast.
„Það er verið að skoða það og verður gert í dag.“
Hjálmur segir að það hafi mjög vel tekist við hönnun og val á staðsetningu á garðinum. Hraunið flæðir meðfram honum og ekki í átt að bænum.
„Þetta virðist virka. Menn voru ekki vissir um að þetta myndi virka þegar þeir fóru af stað. En þetta hefur sýnt sig.“
Hjálmur segir það ekki rétt sem Berghildur hafði heyrt að menn væru að sofa í vinnuvélunum en að einhverjir aukamenn hefðu lagt sig á svæðinu. Hluti tækjanna hafi verið í gangi og því hafi einhverjir beðið átekta til að komast að. Vinnuflokkurinn sé með aðstöðu við Svartsengi inni á svæði hjá HS Orku.