Innlent

Hætt við lendingu vegna þokunnar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Flugvélinni átti að lenda í Reykjavík um hádegisbilið.
Flugvélinni átti að lenda í Reykjavík um hádegisbilið. Vísir/Vilhelm

Þétt þoka liggur yfir Reykjavík og á hún að hanga fram í nótt að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings hjá Veðurstofunni. Hún hefur orðið til þess að ekki var hægt að lenda flugvél á Reykjavíkurflugvelli í dag.

Flugvélin sem þurfti að fara til Keflavíkur var áætlunarflug frá Egilsstöðum og átti að lenda í Reykjavík um hádegisbilið.

„Tiltölulega hlýtt loft yfir landinu vestanverðu og það er enginn vindur og engin hreyfing á því. Landið er farið að kólna og þá þéttist rakinn. Þetta ætlar að hanga fram á kvöld. Svo vex aðeins norðanáttin í kvöld og nótt og blæs aðeins í burtu en það gerist kannski ekki fyrr en seint í nótt,“ segir Þorsteinn.

Þokan var of þykk

Sigrún Björk Jakobsdóttir, fram­kvæmda­stjóri inn­an­lands­flug­valla hjá Isa­via, staðfestir að hætt hafi þurft við lendingu í samtali við fréttastofu. Hún segir að skyggnið hafi verið svo slæmt að þurfti að grípa til þessara ráða. Þó hafi mörgum vélum tekist að lenda í dag.

„Það er fullt af vélum búnar að lenda á flugvellinum, sjúkraflug, áætlunarflug frá Akureyri og frá Ísafirði. En þessir bakkar eru misjafnlega þykkir, þannig að þarna var ekki ráðrúm til þess að lenda. Það var of þykk þoka,“ segir Sigrún.

Ákvörðun flugstjóra að hverju sinni

Hún segir að vegið sé og metið hvort hægt sé að lenda þegar vélar nálgast áfangastað og ef flugstjóri treystir sér ekki til þess sé lent í Keflavík í staðinn.

„Ef það opnast gluggi þá geta þær það en svo getur dregið fyrir jafnskjótt aftur. Þetta er ákvörðun flugstjóra og flugumferðarstjóra að hverju sinni,“ bætir Sigrún við.

Á morgun verður komin ákveðnari norðanátt og þá birtir til. Það er rétt yfir frostmarki á Vesturlandi núna en á morgun verður komið frost á öllu landinu. Allt að tólf stiga frosti er búist í sveitum fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×