Körfubolti

„Sam­kvæmt ó­upp­lýstu, fá­fróðu og grodda­legu fólki þá geta konur ekki unnið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjónin fyrrverandi á góðri stundu.
Hjónin fyrrverandi á góðri stundu. @nikkisappspo

Nikki Spoelstra, fyrrverandi eiginkona Erik Spoelstra – þjálfara Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta, hefur tjáð sig um orðróma þess efnis að hún hafi „klúðrað“ skilnaðinum en Erik fékk nýjan samning hjá Heat upp á mörg hundruð milljónir að skilnaðurinn var staðfestur.

Þannig er mál með vexti að hinn 53 ára gamli Erik skrifaði á dögunum undir átta ára risasamning hjá Heat. Talið er að laun hans muni nema um 120 milljónum Bandaríkjadala eða 16 og hálfum milljarði íslenskra króna.

Í kjölfarið var Nikki gagnrýnd og sagt að hún hefði nú heldur betur „klúðrað“ þessu þar sem hún hefði fengið nokkrar milljónir í sinn vasa hefðu þau enn verið gift þegar Erik skrifaði undir nýja risasamninginn.

Hin 36 ára gamla Nikki hefur tjáð sig um málið á Instagram-síðu sinni þar sem hún hefur fengið nóg af fólki sem er að gagnrýna hana. Hún tekur jafnframt fram að þetta sama fólk hafi verið að gagnrýna hana árum saman.

„Samkvæmt óupplýstu, fáfróðu og groddalegu fólki þá geta konur ekki unnið. Konur geta í alvöru ekki verið ástfangnar af einhverjum sem er farsæll í sínu starfi. Þær eru bara að þykjast því allt sem þær vilja eru peningar. Og ef kona ákveður að vera ekki með farsælum maka þá er hún hálfviti,“ sagði Nikki kaldhæðin og hélt áfram.

„Og nei, ég mun ekki hunsa áreitið lengur. Ég hunsaði það í mörg ár og það fór illa með andlega heilsu mína. Fólk þarf að skilja betur hvaða áhrif orð þeirra geta haft á fólk, ekki bara á mig heldur fólk yfir höfuð.“

Tæpir tveir mánuðir eru síðan skilnaður hjónanna var staðfestur en þau voru saman í sjö ár. Þau kynntust í gegnum Heat þar sem Nikki var dansara hjá félaginu. Saman eiga þau þrjú börn, Santiago sem er fimm ára, Dante sem er þriggja ára og Ruby sem er eins árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×