Mjófirðingurinn vekur athygli á því í yfirlýsingu að yfir eittþúsund undirskriftir séu komnar til stuðnings áskorun til samgönguyfirvalda um að setja Fjarðagöng í forgang á samgönguáætlun, tvenn göng sem tengja myndu Seyðisfjörð og Norðfjörð um Mjóafjörð. Slík göng yrðu þannig sett fram fyrir Fjarðarheiðargöng, milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, sem núna eru áformuð sem næstu jarðgöng á samgönguáætlun.

„Einnig sendi ég opið bréf á alla kjörna fulltrúa Fjarðabyggðar þar sem er skorað á þá að draga samþykki innan Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um að Fjarðarheiðargöng verði næst á samgönguáætlun til baka og fari fram á að ný úttekt verði gerð á gangnakostum á Mið-Austurlandi og Fjarðagöng verði sett í forgang á samgönguáætlun,“ segir Erlendur Magnús, sem búsettur er á Norðfirði.

Undirskriftasöfnunina hóf hann á vefsíðunni Ísland.is þann 23. nóvember síðastliðinn. Söfnuninni lýkur þann 1. febrúar næstkomandi.
Fjallað var um þann ágreining sem er meðal Austfirðinga um jarðgangakostina í þættinum Ísland í dag í fyrra. Þáttinn má sjá hér: