Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, greindi frá sameiningunni að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag. Verði af sameiningu þessara tveggja háskóla yrði til næststærsti háskóli landsins.
„Við erum búin að skoða niðurstöður fýsileikakönnunar. Fýsileikakönnun þýðir að fólk sest niður og ræðir hvort eitthvað er raunhæft. Eftir að fólk er búið að skoða það í fyrstu umferð er alveg augljóst að hægt er að ná fram markmiðum um stærri stofnun og öflugri þjónustu við íslenskt samfélag,“ segir Eyjólfur.
Hann segir að svo af því verði stjórnvöld að taka þátt í því samtali og því sé næsta skref að stofnanirnar tvær fara saman til stjórnvalda til að ræða það. Þegar því er lokið og allir eru sáttir við hlutverk hvers og eins þá er tekin ákvörðun um sameiningu.
„Þannig við erum tveimur skrefum frá sameiningu.“
Vilja að aðgengi sé gott
Spurður hver aukinn aðkoma stjórnvalda er segir Eyjólfur að það sé þá hvernig stjórnvöld sjái fyrir sér stefnu og hlutverk sameinaðra stofnanna.
„Við lítum svo á að okkar hlutverk sé að veita gott aðgengi að háskólanámi fyrir landsmenn alla og við þurfum að vera viss um að stjórnvöld séu í takt með okkur í því. Það sem kom fram í fréttatilkynningu háskólamálaráðherra erum við bjartsýn á að við séum samstíga í þeirri stefnumótum.“
Nýr skóli næstu áramót
Eyjólfur segir erfitt að spá fyrir um það hversu langt samtalið verið en að hann geri ráð fyrir einhverjum vikum. Það væri best ef hægt væri að taka ákvörðunina á þessu misseri og ef verði af sameiningu væri hægt að gera ráð fyrir því að henni yrði lokið um næstu áramót.
„Tímaramminn er ekki það mikilvægasta. Stefnan, markmiðið og endanlegur stuðningur stjórnvalda skiptir mestu máli. Svo finnum við tímaramma sem hentar fyrir það.“
Eyjólfur segir að hann hafi ekki fengið viðbrögð frá nemendum í dag en að þetta hafi verið unnið í samráði við starfsfólk og nemendur.
„Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum gott samtal við nemendur og starfsfólk. Þetta eru breytingar og þær eru alltaf erfiðar. Sérstaklega þegar það er ekki búið að svara öllum spurningum. Eins og ég sagði áðan þá eru tvö skref eftir og fullt af spurningum ósvarað áður en ákvörðun er tekin. En það sem skiptir nemendur mestu máli núna er að við erum alltaf að tala um að hér sé opinber stofnun sem veiti aðgengi að háskólanámi á sömu kjörum og aðrar háskólastofnanir.“