Guðmunda dvelur um þessar mundir á dvalarheimilinu Lundi á Hellu eftir að hafa orðið fyrir smá byltu heima hjá sér í Lækjartúni í Ásahreppi. Þar hefur hún stundað búskap í áratugi með góðum árangri, aðallega með kýr, auk þess að hafa verið með sauðfé, hross og hænur.
Eins og kunnugt er þá var öllum skepnum Guðmundu slátrað að skipun Matvælastofnunar. Guðmunda krafðist þá að ákvörðun stofnunarinnar yrði felld úr gildi og að það yrði viðurkennt að búfé hennar hafi verið slátrað með ólögmætri stjórnvaldsaðgerð.
Matvælaráðuneytið úrskurðaði Guðmundu í vil, það mátti ekki slátra búpening hennar.
Og þú varst bara ákveðin að fara í mál við stofnunina?
„Mér fannst ég gæti ekki annað því mér fannst þetta svo langt gengið því mér var sagt að ég væri bara svipt öllu andmælafrelsi og hefði ekkert með skepnurnar að gera. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Skepnurnar voru ekkert illa haldnar eða vanhirtar. Ég reyndi að fá hjálp til að sinna þeim ef ég gat það ekki sjálf,” segir Guðmunda.

Og fékkstu einhverja hjálp eða hvernig var það?
„Já, það fékk ég sannarlega en Matvælastofnun hlustaði ekki á það,” segir hún.
Guðmunda hefur nú fengið yfirlit frá Matvælastofnun yfir skepnurnar, sem var slátrað með upplýsingum um andvirði þeirra og hefur peningurinn verður lagður inn á reikning Guðmundu. Þá biðst Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri stofnunarinnar velvirðingar á þessum mistökum og harmar óþægindin.
„Manni finnst kannski mest um vert ef við getum lært af vitleysunni og komið einhverju til betri vegar. Þetta voru óþarfa læti. Þetta voru vinir mínir, skepnurnar,” segir Guðmunda.

Guðmunda er nú búin að fá sér fjórar hænur og einn hana, sem eru í pössun á meðan hún er á Lundi.
„Það er betra en ekki því þau voru hjá mér í sumar og töluðu við mig sínu hænumáli. Haninn varð eitthvað lasin og svo hresstist hann og fékk nafnið Ófeigur,” segir hún alsæl.
Guðmunda segist vonast til að geta farið heim aftur í Lækjartún en hún verður 92 ára 13. febrúar næstkomandi.

Guðmunda var sótt heim í Ísland í dag árið 2011 og fengu áhorfendur þá að skyggnast inn í líf hennar og búskap. Hér fyrir neðan má sjá frá þeim þætti: