„Við erum að byrja vinnslu aftur á morgun í fyrsta sinn síðan 10. nóvember og erum að fara að setja flökunarvélarnar í gang á morgun,“ segir Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood í Grindavík í samtali við fréttastofu.
Morgundagurinn er þannig stór fyrir félagið og mikil eftirvænting í loftinu.
„Þetta er að bresta á, loksins. Eftirvæntingin er mikil, það liggur í augum uppi, eftir allt þetta.“
Hún segir nánast alla starfsmenn Einhamars búsetta í Reykjanesbæ og því ekki um langan veg að fara fyrir starfsmenn fiskvinnslunnar.
„Annars held ég að mér sé óhætt að segja að allir séu búsettir í Grindavík eða Reykjanesbæ.“