Innherji

Hluta­bréf enn hátt verð­lögð miðað við hagnað og á­hættu­lausa kröfu

Brynjar Örn Ólafsson skrifar
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6 prósent á árinu 2023 en sé leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan hins vegar um 1,2 prósent.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6 prósent á árinu 2023 en sé leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan hins vegar um 1,2 prósent. VÍSIR/VILHELM

Þetta er í síðasta skipti sem CAPE-hlutfallið er birt byggt á Úrvalsvísitölunni OMXI10 en frá og með 1. janúar 2024 mun hún bera heitið OMXI15 og innihalda fimmtán félög í stað tíu. Hagsveifluleiðrétt hlutfall verðs á móti raunhagnaði (CAPE) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 endaði síðasta ár í 28,1 samanborið við 29,1 árið áður.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,6 prósent á árinu 2023 en sé leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan hins vegar um 1,2 prósent. Heildarvísitala Aðalmarkaðarins lækkaði í fyrra um 3,4 prósent en leiðrétt fyrir arðgreiðslum var hún niður um 0,7 prósent.

Hlutfall verðs á móti tólf mánaða hagnaði (PE) endaði í 28,7 en á sama tíma ári áður nam gildið 11,2. Eftir því sem leið á árið 2023 lækkaði verðlagsleiðréttur hagnaður félaga vísitölunnar og náði lágmarki í júlí. Það sem eftir lifði árs hélst hagnaðurinn á svipuðu reiki.

Félögin að baki Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar eru því enn nokkuð hátt verðlögð miðað við afkomu þeirra og áhættulausa kröfu á ríkisbréf.

Á sama tíma stigu vextir á liðnu ári og hækkaði fimm ára ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa um 100 punkta, en undir lok desember hafði krafan lækkað á ný og endaði árið 2023 í 7,1 prósent. Til samanburðar er sambærileg ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisbréfa nálægt 3,9 prósent eftir að hafa fallið skarpt á síðustu vikum ársins 2023.

Höfundur er hagfræðingur.


Nánar um CAPE:

Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.

Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.


Tengdar fréttir

Hlutabréfamarkaðurinn í millibilsástandi

Í nóvember hækkaði virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (svonefnt CAPE-hlutfall) í Kauphöllinni lítillega frá fyrri mánuði, og var 26,1 eftir að hafa verið 24,9 í lok október. Hækkunin stafar af hærra virði félaga að baki OMXI10-vísitölunnar fremur en lækkun hagnaðar. Til samanburðar er CAPE-hlutfallið fyrir bandarísku hlutabréfavísitöluna S&P500 liðlega 31 um þessar mundir.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×