Innlent

Hand­töskunni stolið á meðan setið var að snæðingi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þjófnaðir og einstalingar í annarlegu ástandi komu við sögu lögreglu í nótt.
Þjófnaðir og einstalingar í annarlegu ástandi komu við sögu lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust nokkrar tilkynningar um þjófnaði á vaktinni í gærkvöldi og nótt og þá var nokkuð um að einstaklingar í annarlegu ástandi væru til vandræða.

Tvær tilkynningar bárust um þjófnað úr verslun í póstnúmerinu 108 og ein um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Þá var einnig tilkynnt um þjófnað á veitingastað í Kópavogi en þar var handtösku stolið af viðskiptavin á meðan hann sat að snæðingi.

Lögregla var einnig kölluð til vegna einstaklings sem var að vera til vandræða í miðbænum. Reyndist hann í annarlegu ástandi, sparkaði meðal annars í lögreglubifreið og var ekki viðræðuhæfur. Var hann vistaður í fangageymslu.

Þá kom leigubílstjóri að lögreglustöðinni við Hverfisgötu með farþega sem var að vera til vandræða. Hann var ekki heldur viðræðuhæfur og vistaður í fangageymslu.

Tilkynning barst um slys í Kópavogi þar sem einstaklingur hafði verið að renna sér á snjóþotu. Var talið að hann væri fótbrotinn og var hann fluttur á Landspítala með sjúkrabifreið. Þá var tilkynnt um hálkuslys í Hafnarfirði en viðkomandi var skoðaður af sjúkraflutningamönnum og keyrður heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×