Handbolti

Sá besti blæs á sögu­sagnir um að hann sé á förum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jim Gottfridsson segist ekki kannast við að vera búinn að skrifa undir hjá Pick Szeged.
Jim Gottfridsson segist ekki kannast við að vera búinn að skrifa undir hjá Pick Szeged. Vísir/Getty

Jim Gottfridsson, besti handboltamaður heims árið 2022, segir lítið til í þeim sögusögnum að hann sé á leiðinni til ungverska liðsins Pick Szeged frá Flensburg í Þýskalandi.

Gottfridsson hefur verið í herbúðum Flensburg frá árinu 2013 og verið algjör lykilmaður í liðinu síðan. Hann var svo kjörinn besti handboltamaður heims í kosningu vefsíðunnar Handball-Planet á síðasta ári eftir að hafa hafnað í þriðja sæti HM í handbolta með sænska landsliðinu.

Stuttu fyrir jól bárust svo fréttir af því að leikmaðurinn væri búinn að ná samkomulagi við ungverska liðið Pick Szeged og að hann myndi ganga til liðs við félagið sumarið 2025, eftir að núverandi samningur hans við Flensburg rennur út.

Gottfridsson yrði þá annar miðjumaðurinn sem myndi ganga til liðs við Pick Szeged á stuttum tíma, en íslenski landsliðsmaðurinn Janus Daði Smárason gengur í raðir liðsins næsta sumar.

Sjálfur segist Gottfridsson þó ekki kannast við að hafa samið við Pick Szeged. Hann segist ekki vera búinn að ákveða hvað framtíðin ber í skauti sér og minnir fólk í leiðinni á að fyrir nokkrum árum hafi svipaðar sögur um hann farið á kreik, án þess að þær hafi reynst sannar.

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvað ég geri í framtíðinni. Fyrir tveimur árum var ég greinilega búinn að skrifa undir hjá Barcelona og Kielce,“ sagði Gottfridsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×