Fótbolti

Jón Daði lagði upp er Bolton komst aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson lagði upp fyrsta mark Bolton í dag.
Jón Daði Böðvarsson lagði upp fyrsta mark Bolton í dag. Vísir/Getty

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson lagði upp fyrsta mark Bolton er liðið vann góðan 3-2 sigur gegn Leyton Orient í ensku C-deildinni í knattspyrnu í dag.

Jón Daði gaf stoðsendingu á Josh Cogley strax á þriðju mínútu áður en Dion Charles tvöfaldaði forystu Bolton aðeins fjórum mínútum síðar.

Strax á tíundu mínútu skoraði George Thomason svo þriðja mark Bolton og útlitið því virkilega gott fyrir heimamenn. Fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik og staðan var því 3-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Shaqai Forde minnkaði muninn fyrir Leyton Orient á 55. mínútu eftir stoðsendingu frá  Theodore Archibald áður en dæmið snérist við og Forde lagði upp á Archibald fimm mínútum síðar. Nær komust gestirnir þó ekki og niðurstaðan varð 3-2 sigur Bolton.

Bolton situr nú í þriðja sæti ensku C-deildarinnar með 42 stig eftir 21 leik og er í harðri baráttu um að vinna sér inn sæti í B-deildinni. Bolton hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leik dagsins og því mikilvægt að fara á jákvæðum nótum inn í jólahátíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×