Fótbolti

Burnley og Luton nálgast öruggt sæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andros Townsend skoraði mikilvægt mark fyrir Luton í dag.
Andros Townsend skoraði mikilvægt mark fyrir Luton í dag. Vísir/Getty

Burnley og Luton unnu bæði mikilvæga sigra í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Á sama tíma mátti Nottingham Forest þola 2-3 tap gegn Bournemouth.

Burnley-menn voru án Jóhanns Berg Guðmundssonar er liðið heimsótti Fulham í dag sem fjarri góðu gamni vegna meiðsla. 

Wilson Odobert og Sander Berge sáu hins vegar um markaskorun gestanna og tryggðu Burnley dýrmætan 0-2 sigur. Liðið er nú með 11 stig í 19. sæti deildarinnar, þremur stigum frá öruggu sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Þá vann Luton einnig dýrmætan sigur á sama tíma þegar liðið tók á móti Newcastle. Andros Townsend skoraði eina mark leiksins á 25. mínútu eftir stoðsendingu frá Ross Barkley og Luton er nú með 12 stig í 18. sæti deildarinnar, en Newcastle situr í sjöunda sæti með 29 stig.

Að lokum vann Borunemouth dramatískan 2-3 sigur gegn Nottingham Forest þar sem heimamenn í Forest þurftu að spila manni færri stóran hluta leiksins eftir að Willy Boly fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 23. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir liðsmuninn komust heimamenn í Forest yfir á 46. mínútu með marki frá Anthony Elanga áður en Dominic Solanke kom gestunum í forystu með tveimur mörkum með stuttu millibili eftir tæplega klukkutíma leik.

Chris Wood jafnaði hins vegar metin fyrir Forest á 74. mínútu áður en Solanke fullkomnaði þrennu sína í uppbótartíma og tryggði Bournemouth dramatískan 2-3 sigur. 

Bournemouth hefur verið á mikilli siglingu undanfarnar vikur og liðið situr nú í 11. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 17 leiki, En Nottingham Forest er án sigurs í deildinni síðan í byrjun nóvember og situr í 17. sæti með 14 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×