Innlent

Ætlar ekki að gista í Grinda­vík

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. Vísir/Egill

Landris við Svartsengi mun líklegast ná sömu hæð og fyrir gos eftir tvær til þrjár vikur. Bæjarstjóri Grindavíkur segir það vonbrigði að það gæti byrjað að gjósa á ný nærri bænum. Hann telur að fáir muni gista í Grindavík yfir hátíðarnar. 

Land hefur haldið áfram að rísa við Svartsengi eftir að eldgosinu við Sundhnúksgíga lauk fyrir tveimur dögum síðan. Land hafði sigið þónokkuð á meðan gosinu stóð en líklegt þykir að það nái sömu hæð og fyrir gos eftir tvær til þrjár vikur, haldi landrisið sama takti.

Í gær tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum að Grindvíkingum væri heimilt að gista heima hjá sé yfir hátíðarnar. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, telur að fáir muni gista þar en þeir sem stefna á það þurfi að hafa varann á.

„Lögreglustjórinn, í sinni tilkynningu tekur hann rækilega fram að þarna geti verið fátt til bjargar ef að það skildi reyna á. Það verða ekki björgunarsveitir tilbúnar í bænum um jólin, þetta er fólk sem er staðsett vítt og breytt um landið. Þannig það þarf að hafa alla gát á,“ segir Fannar. 

Hann segir það vonbrigði fyrir alla Grindvíkinga að gos geti hafist á ný við Svartsengi. Margir séu kvíðnir og áhyggjufullir vegna ástandsins. Fannar ætlar sjálfur ekki að gista í bænum.

„Ég hafði gert ráðstafanir til þess að vera með minni fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Það verður þannig en það er aldrei að vita nema maður líti aðeins heim en við munum ekki gista þar,“ segir Fannar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×