Innlent

Flug­vél Icelandair enn föst á Ind­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Icelandair-vélin var á Lal Bahadur Shastri-flugvellinum
Icelandair-vélin var á Lal Bahadur Shastri-flugvellinum Vísir/Vilhelm

Flugvél Icelandair er enn föst á Indlandi eftir að afturhluti vélarinnar rakst í flugbraut við lendingu í nóvember. Ferja þarf vélina á annan flugvöll til að ljúka viðgerð. 

Icelandair bíður eftir heimild til að ferja flugvél sína á annan flugvöll í Indlandi þar sem á að ljúka viðgerðum á vélinni. Það segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, í svari til fréttastofu um málið.

Greint var frá því í síðasta mánuði að afturhluti flugvélar Icelandair hafi strokist við flugbraut í lendingu á á Lal Bahadur Shastri flugvelli í Varanasi á Indlandi. Atvikið átt sér stað þann 10. nóvember síðastliðinn.

Í svari Icelandair um málið kom fram að flugvirkjar hafi verið með í ferðinni sem hófust strax handa við að meta tjónið og skipuleggja viðgerð.

„Skemmdir voru ekki miklar en bráðabirgðaviðgerð tók nokkurn tíma þar sem flugvöllurinn er lítill og ekki mikil aðstaða til þess að sinna viðgerðunum. Nú er beðið eftir heimild til þess að ferja flugvélina á annan flugvöll þar sem lokið verður við viðgerð,“ segir Guðni.

Atvikið var strax tilkynnt bæði Samgöngustofu og Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA).

„Flugrekandinn tilkynnti svokallað „tailstrike“ á B757-200 flugvél á Indlandi til RNSA föstudaginn 10. nóvember, sem er sami dagur og atvikið varð. Samkvæmt verklagi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), þá tilkynnti RNSA atvikið til rannsóknarnefndar flugslysa í Indlandi sama dag,“ sagði í svari til fréttastofu frá RNSA fyrir um mánuði síðan.

Málið er til rannsóknar hjá indverskum yfirvöldum en RNSA aðstoðar við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×