Þetta er í annað sinn sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, auglýsir styrki til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka til að vinna gegn fíknisjúkdómum.
Í frétt á vef Stjórnarráðsins kemur fram að áhersla hafi verið lögð á að verkefni sem kæmu til greina skyldu byggja á faglegum grunni, hafa raunhæft markmið tengt því að vinna gegn fíknisjúkdómum og hafa skýrt upphaf og endi. Alls bárust umsóknir um sjö verkefni. Sex þeirra hlutu styrk en ein umsókn uppfyllti ekki skilyrði.
Matthildur, samtök um skaðaminnkun, hlaut hæsta styrkinn, átta milljónir króna í færanlegt skaðaminnkunarverkefni fyrir fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni.
Matthildur hlaut einnig 3,6 milljónir til að auka aðgengi að upplýsingum á vefnum um öruggari notkun löglegra og ólöglegra vímuefna og forvarnir gegn ofskömmtun.
Foreldrahús hlaut fjögurra milljón króna styrk, til að veita fjölskyldum ráðgjöf sem snemmtækt inngrip vegna vímuefnanotkunar unglinga sem hluta af fyrirhuguðu forvarnarverkefni félagasamtakanna.
Rótin hlaut 3,8 milljónir til verkefnis sem miðar að því að þróa áfram og koma á fót lágþröskulda-heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem glíma við heimilisleysi og alvarlegan vímuefnavanda.
Samhjálp hlaut 5,4 milljónir króna til áframhaldandi innleiðingar áfallamiðaðrar nálgunar í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings.
SÁÁ hlutu 5,2 milljónir króna til að útbúa aðgengilegt fræðsluefni með upplýsingum um aðgengi að meðferð og bjargráð sem nýtast til að draga úr neikvæðum afleiðingum ópíóíða.
Kynnti 170 milljón króna aðgerðir í apríl
Heilbrigðisráðherra sagði fyrr á þessu ári að vísbendingar væru um að ólögleg framleiðsla á ópíóðalyfjum fari fram hér á landi. Faraldurinn sem geisaði væri samfélagslegt verkefni og nauðsynlegt væri að skera upp herör. Þá kynnti hann hugmyndir að aðgerðum um að veita 170 milljónir til að sporna við skaða af völdum ópíóðafíknar.