Innlent

Líf færist í skíða­brekkur landsins

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Skíðasvæðin í Bláfjöllum opna klukkan 14 í dag.
Skíðasvæðin í Bláfjöllum opna klukkan 14 í dag. Vísir/Vilhelm

Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður opið í dag, í fyrsta sinn í vetur. Góðar aðstæður eru á svæðinu,-12° og logn. Skíðagarpar í jólafríi ættu því að kætast, en einnig verður opið í Hlíðarfjalli á Akureyri.

Á Facebook síðu Bláfjalla kemur fram að byrjað verði á að opna Drottingarbraut og byrjendasvæðið. Þá verður göngubraut lögð út á horn, kringum hólinn og um Leirurnar. Opið verður frá klukkan 14 til 21.

Lokað verður í Bláfjöllum 23, 24. og 25. desember en opið 26.-30.desember. Miklar breytingar hafa verið gerðar á skíða­svæðinu undan­farin ár, líkt og Vísir fjallaði um fyrir skömmu.  Síðasta vetur voru reistar tvær nýjar stóla­lyftur og nú er verið að setja upp nýtt sjálfvirkt snjó­fram­leiðslu­kerfi. Kerfið virkar þannig að borað er niður í jörðina og dæla sett ofan í sem dælir ofan í lón. Úr lóninu fer það í dælu­stöð og svo í brekkuna þar sem það fer í gegnum snjó­byssur þar sem vatnið svo frýs í loftinu.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á skíða­svæðinu í Bláfjöllum undan­farin ár.Vísir/Vilhelm

Framleiddur snjór í Hlíðarfjalli

Í dag er einnig stefnt að opnun í Hlíðarfjalli. Fyrst um sinn verður aðeins hluti neðra svæðis opinn þar sem snjó skortir á efra og neðra svæði. Sá snjór sem er í brekkunum er nánast eingöngu framleiddur.

„Hólabraut og Hjallabraut verða opnaðar ásamt Töfrateppinu, en síðustu daga höfum við með aðstoð framleiðandans Sun Kid gert frábærar endurbætur á nýju yfirbyggingunni fyrir veturinn. Næstu daga verður svo unnið að því að ná tengingum við Fjarka stólalyftu og von okkar er að hún geti verið komin inn á jóladag“, segir á Facebook síðu Hlíðarfjalls.

Gestum er bent á að utanbrautaskíðun sé gríðarlega varasöm, þar sem snjóþekjan er lítil sem engin og stutt í grjót undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×