Þórður Daníel er búsettur í Búlgaríu og Ásdís Rán hefur verið með annan fótinn þar síðustu fimmtán ár. Í kveðju á Facebook óskar Ásdís Rán vinum sínum gleðilegra jóla og segist vona að eldgosið á Reykjanesi komi ekki í veg fyrir að þau geti flogið til Íslands fyrir áramót.
Í samtali við Vísi í haust sagði Ásdís Rán að ástin hafi kviknað í sumar þegar hún bauð Þórði með sér í ferðalag á Sunny Beach í Búlgaríu. Að hennar sögn bauð hún Þórði með sér sem ferðafélaga þar sem hann var nýlega kominn úr sambandi.
Ferðalagið tók svo óvænta stefnu þar sem ástin kviknaði á milli þeirra. „Þetta var ekki alveg planið en svona er lífið,“ sagði Ásdís kímin.
„Við erum búin að vera saman í allt sumar og hann fær mig í hendurnar annan hvern mánuð í vetur. Það verður að duga í bili þar sem þetta eru spilin sem við höfum í höndunum eins og er,“ sagði Ásdís.
Þórður er fyrrum útvarpsmaður á FM957 og rekur í dag fyritækið Icestore sem selur níkótínpúða og rafsígarettur í borginni Plovdiv í Búlgaríu þar sem hann hefur búið síðastliðin fimm ár.