Viðskipti innlent

Spá fjölgun far­þega og ferða­manna á næsta ári

Lovísa Arnardóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að farþegar um Keflavíkurflugvöll geti orðið allt að 8,5 milljónir á næsta ári. Aðeins tvisvar hafa þeir verið fleiri.
Gert er ráð fyrir að farþegar um Keflavíkurflugvöll geti orðið allt að 8,5 milljónir á næsta ári. Aðeins tvisvar hafa þeir verið fleiri. Vísir/Vilhelm

Tæplega 8,5 milljónir farþega munu ferðast um Keflavíkurflugvöll á næsta ári samkvæmt farþegaspá flugvallarins fyrir árið 2024. Frá því er greint í tilkynningu. Farþegar hafa aðeins tvisvar verið fleiri. Þá er einnig gert ráð fyrir fjölgun ferðamanna og að fjöldinn verði meiri en þegar hann var mestur árið 2018.

Þar segir að gert sé ráð fyrir því að tæplega 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn og að 8,49 milljónir farþega fari um völlinn. Það er 9,6 prósenta aukning frá þeim 7,74 milljónum sem fóru um flugvöllinn á þessu ári

Samkvæmt tilkynningunni hafa farþegarnir aðeins tvisvar verið fleiri, 8,8 milljónir 2017 og 9,8 milljónir 2018. Gangi spáin eftir verður árið 2024 þannig það þriðja stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands.

„Spáin bendir einnig til þess að fjölgun farþega, sem og erlendra ferðamanna, verði hlutfallslega meiri en áður yfir vetrarmánuðina en sumarmánuðina. Það mun styðja við betri og jafnari nýtingu á flugvellinum yfir allt árið og á innviðum ferðaþjónustunnar,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia í tilkynningunni.

Farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir næsta ár. Sjá má heildarfjölda eftir mánuðum og hversu mikilli aukningu er gert ráð fyrir frá árinu í ár. Mynd/Isavia

Fram kemur í tilkynningunni að yfir sumarmánuðina muni 25 flugfélög fljúga áætlunarflug til 82 áfangastaða og 20 flugfélög til 69 áfangastaða yfir vetrarmánuðina.

Ef horft er til þeirra mánaða sem skilgreindir eru sem vetrarmánuðir, það er janúar, febrúar, mars, nóvember og desember, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 15,2 prósent eða um 354 þúsund.

Yfir sumarmánuðina, apríl til október, er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um 391 þúsund sem er 7,2 prósenta aukning á milli ára.

Tengifarþegar um 30 prósent

Hlutfall tengifarþega er samkvæmt spánni um 30 prósent af heildarfjölda farþega á næsta ári. En er um 27 prósent á þessu ári. Hlutfall tengifarþega fór mest árið 2018 þegar það var um 40 prósent.

Samhliða farþegaspánni var einnig unnin spá um fjölda erlendra ferðamanna sem hingað sækja á næsta ári.

Þar er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði tæplega 2,38 milljónir. Það eru um 60 þúsund fleiri en árið 2018 þegar þeir voru 2,32 milljónir sem er mesti fjöldi ferðamanna sem hefur komið til landsins á einu ári.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að met verði slegið í fjölda ferðamanna á landinu. Ekki fara allir inn í landið sem fara í gegnum flugvöllinn. Vísir/Vilhelm

Í ár koma um 2,21 milljónir ferðamanna til landsins og gerir spáin því ráð fyrir 7,3 prósenta aukningu á milli ára. Um 93 þúsund fleiri ferðamenn munu koma yfir vetrarmánuðina á næsta ári samkvæmt spánni, sem 13,4 prósenta aukning á milli ára. Yfir sumarmánuðina er gert ráð fyrir 68 þúsund fleiri ferðamönnum sem er 4,5 prósenta aukning.


Tengdar fréttir

Aukið fjármagn til flugvalla um land allt

Uppbygging varaflugvalla á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við vöxt alþjóðarflugs síðustu misseri. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll en hins vegar erum við að sjá aukið millilandaflug gegnum flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.

Fjölgun um 68 prósent hjá Play

Farþegum hjá Play fjölgaði um 68 prósent í október, samanborið við október í fyrra. Fjölgunin hjá Icelandair á sama tímabili var níu prósent.

Far­þegum fjölgaði um sex­tán prósent milli ára

Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 366 þúsund í maí, sextán prósent fleiri en í maí í fyrra þegar farþegar voru 316 þúsund. Sætaframboð í maí jókst um ellefu prósent miðað við fyrra ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×