Greint er frá skipuninni á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að hæfisnefnd hafi metið Guðlaugu vera mjög vel hæfa til að gegna embættinu.
Guðlaug er hjúkrunarfræðingur að mennt og með meistarapróf í viðskiptafræðum frá HÍ. Þá hefur hún lokið ýmsum námskeiðum í lýðheilsuvísindum innan HÍ í tengslum við doktorsverkefni sem hún vann að um faraldsfræði notenda bráðamóttaka.
„Í umsögn hæfnisnefndar er m.a. bent á mikla og fjölþætta reynslu Guðlaugar Rakelar af rekstri og stjórnun með umfangsmiklum mannaforráðum þar sem m.a. hefur reynt á fjármálaumsýslu og áætlanagerð. Hún hafi í störfum sínum öðlast víðtæka þekkingu á opinberri stjórnsýslu og fjármálum hins opinbera,“ segir í tilkynningunni.
Markús Ingólfur Eiríksson, fráfarandi forstjóri HSS, stendur nú í málarekstri gegn ráðherra og ríkinu en hann vill meina að hann hafi orðið fyrir ranglæti og óeðlilegum þrýstingi í tengslum við það að staða hans sem forstjóri var auglýst.
Ekki er búið að dæma í málinu en nánar má lesa um málið í fréttinni hér fyrir neðan.