Innlent

Sex milljarða hækkun í málum fatlaðra

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Heildarhækkun til sveitarfélaga fyrir málaflokkinn nemur tæpum 12 milljörðum síðasta rúma árið.
Heildarhækkun til sveitarfélaga fyrir málaflokkinn nemur tæpum 12 milljörðum síðasta rúma árið.

Ríkið og sveitarfélögin skrifuðu undir samkomulag í dag um breytingu í þjónustu sveitarfélaga við fatlaða. Samkomulagið felur í sér flutning sex milljarða króna frá ríkinu fyrir málaflokkinn.

Heildarhækkun upp á 12 milljarða

Samkomulagið kveður á 0,23% hækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga og tekjuskattsprósenta ríkisins lækkar til móts við það. Í kjölfar samkomulags frá í desember í fyrra fluttust 5,7 milljarðar krónur til sveitarfélaganna og er því heildarhækkun í málaflokknum tæplega tólf milljarðar.

Meðal undirritaðra voru Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdarstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Mikið ánægjuefni“

Guðmundur Ingi, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir þetta mikilvægan áfanga í kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mikið gleðiefni.

„Ríki og sveitarfélög munu líka halda áfram við kortlagningu, greiningu og gerð tillagna er snúa að börnum með fjölþættan vanda, fullorðnum sem sæta öryggisþjónustu og varðandi það að vinna niður biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Ég hlakka til þeirrar vinnu,“ segir Guðmundur.

Þórdís Kolbrún, fjármála- og efnahagsráðherra segir ánægjulegt að loks fáist niðurstaða milli ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki. Sigurður Ingi, innviðaráðherra segir jafnframt undirritun samkomulagsins mikið ánægjuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×