Rifostadeildin í mjólkurstöðinni eins og hún er alltaf kölluð af heimamönnum hefur verið starfrækt frá því í 2009 en hún var áður til húsa hjá Osta- og smjörsölunni í Reykjavík.
Í deildinni á Sauðárkróki er framleiddur nánast allur rifostur í landinu, bæði fyrir smásölumarkaðinn og til veitingahúsa.
„Þetta verður svona átján hundruð til átján hundruð og fimmtíu tonn á þessu ári og það hefur verið stöðug aukning frá byrjun. Það er rosalega mikið en það hefur verið svona 70 til 80 tonna aukning á hverju ári hjá okkur,” segir Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri hjá MS á Sauðárkróki.
„Þetta magn segir dálítið til um hvernig neysluhefð okkar Íslendinga er pínu að breytast. Neysla á pizzum hefur stóraukist og svo framvegis,” bætir Jón Þór við.
En hvernig osta er Jón Þór og hans starfsfólk að nota í rifostana?
„Það er notað í þetta að svona stærstum hluta pizza moserella frá Egilsstöðum, bæði 17% og 21 og svo erum við að blanda saman við þetta ostum, sem við framleiðum hérna sjálfir.”
Og Jón Þór er bjartsýnn með sölu á rifostunum og öðrum ostum á nýju ári, sem framleiddir eru á Sauðárkróki.
„Það verður bara áfram uppgangur í ostunum, já, já, það er það. Það er söluaukning, við erum náttúrulega með mikið af ferðamönnum í landinu og það þarf að sinna þeim. Þannig að ég sé ekkert fram á annað en að það verði mikill uppgangur.”