Handbolti

Ofurtölvan telur Magdeburg eiga þrettán prósent mögu­leika að verja titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. getty/Marius Becker

Samkvæmt útreikningum tölfræðisérfræðingsins Julians Rux á Handballytics á Barcelona mesta möguleika á að vinna Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Ofurtölva Rux telur Börsunga eiga 37,6 prósent möguleika á að verða Evrópumeistara.

Barcelona komst í úrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en tapaði fyrir Magdeburg með Gísla Þorgeir Kristjánsson fremstan í flokki.

Samkvæmt útreikningum ofurtölvunnar eiga Gísli, Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason og félagar í Magdeburg 12,9 prósent möguleika á að verja titilinn.

Næstlíklegasta liðið til að vinna Meistaradeildina er Veszprém sem Bjarki Már Elísson leikur með. Ofurtölvan gefur ungversku meisturunum 16,4 prósent möguleika á sigri í Meistaradeildinni.

Möguleikar Hauks Þrastarsonar og félaga í Kielce eru aðeins taldir 4,4 prósent. Það er samt töluvert meira en Kolstad, sem Sigvaldi Guðjónsson leikur með. Samkvæmt útreikningum ofurtölvunnar eru möguleikar Noregsmeistaranna bara 0,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×