Í færslunni segir að ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss sé norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhnjúksgíga.
„Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður og gæti það hafist með skömmum fyrirvara. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði,“ segir í færslunni.
Skjálftavirkni hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga, stærsti síðustu þrjá daga mælst 2,3 að stærð.
„Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út. Kortið sýnir mat á hættum sem eru til staðar og nýjum hættum sem gætu skapast með litlum fyrirvara innan tilgreindra svæða. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hættur geta leynst utan þeirra. Aðstæður innan og utan svæðanna geta breyst með litlum fyrirvara,“ segir í færslunni.
