Katrín Tanja náði sjöunda sætinu á heimsleikunum í haust eftir að hafa misst af heimsleikunum árið á undan. Það var mikil áfall fyrir okkar konu en hún kom sterk til baka og kom sér enn á ný í hóp þeirra bestu á heimsmeistaramótinu í ár.
Það er vissulega ástæða til að hrósa okkar konu fyrir að halda sér meðal þeirra bestu í heimi í svo langan tíma og þegar samkeppnin verður alltaf meiri og meiri. Samantekt Heaton á því fullan rétt á sér og er mikið hrós fyrir okkar konu.
Katrín varð heimsmeistari tvö ár í röð frá 2015 til 2016. Hún komst líka á verðlaunapallinn á heimsleikunum 2018 (3. sæti) og 2020 (2. sæti) og hefur því unnið fern verðlaun á heimsleikum.
Katrín hélt sér meðal þeirra fimm bestu á öllum heimsleikunum frá 2015 til 2020 en það ótrúlega gengi endaði þegar hún varð tíunda á heimsleikunum 2021.
Katrín var ótrúlega nálægt því að tyggja sér sæti á heimsleikunum 2022 en rétt misst af því á lokamótinu. Þeir sem þekkja til hennar vita að hún er oftast öflugust á úrslitastundu og í maður á mann keppni. Það hefur hún sýnt og sannað margoft enda erfitt að finna meiri keppnismanneskju.
Í ár keppti hún Norður-Ameríkumegin en ekki í Evrópu. Katrín er að vinna að því að verða bandarískur ríkisborgari en hún býr nú með kærasta sínum í Idaho. Hún varð þriðja inn á heimsleikana úr vesturhluta Norður Ameríku.
Heaton lofsamar stöðugleika okkar konu sem hann segir þann næstbesta hjá CrosssFit konu undanfarin áratug á eftir sexfalda heimsmeistaranum Tiu Clair Toomey-Orr.
Toomey-Orr varð í öðru sæti bæði árin sem Katrín varð heimsmeistari en vann síðan næstu sex ár í röð, 2017-2022, sem er met. Toomey var ekki með í ár þar sem hún eignaðist sitt fyrsta barn í maí. Það á því engin möguleika á því að taka fyrsta sætið af henni.
Ungverjinn Laura Horvath tryggði sér heimsmeistaratitilinn í haust og varð þar með sú fyrsta síðan 2015, sem ekki heitir Katrín Tanja eða Tia Clair, til að vinna heimsmeistaratitilinn.
Grein Heaton má finna hér en hún er reyndar á bak við læstan vegg Morning Chalk up vefsins. Aðeins áskrifendur geta því lesið samantekt hans.