Guðmundur var síðast framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi sem gaf út Fréttablaðið. Fyrirtækið varð gjaldþrota í vor og var útgáfu Fréttablaðsins hætt.
„Eftir að hafa tekið mér gott frí í sumar eftir fjölmiðlabransann tók ég ákvörðun um að ganga til liðs við félaga minn Sverri Einarsson (Lelli) hjá Útfararstofu Íslands,“ segir Guðmundur Örn í færslu á Facebook.
Sverrir og Guðmundur Örn eiga báðir sterka tengingu við knattspyrnuna. Sverrir var á sínum tíma formaður knattspyrnudeildar Fram en Guðmundur er faðir Jóhanns Berg Guðmundssonar, fyrirliða karlalandsliðsins í knattspyrnu.
„Sverrir hefur sinnt útfararstjórn af alúð og fagmennsku í yfir 40 ár. Ég mun sinna framkvæmdastjórn auk þess að aðstoða við útfarir. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu starfi en þar reynir á að vera til staðar fyrir aðstandendur á erfiðum tímum og halda utan um allan undirbúning er við kemur útför,“ segir Guðmundur Örn.
„Ég mun sinna þessu starfi, með þá lífsreynslu sem ég hef úr lífi og starfi, af alúð og virðingu fyrir aðstandendum og hinum látna.“
Guðmundur Örn var á sínum tíma framkvæmdastjóri Landsbjargar og síðar sjónvarpsstjóri hjá ÍNN. Þar hætti hann eftir níu mánuði í starfi. Aðalástæða brotthvarfsins var sú að dóttir Guðmundar og sonur Ingva Hrafns Jónssonar, stofnanda stöðvarinnar, áttu í ástarsambandi.
„Við töldum ekki vænlegt að tveir tengdapabbar væru að vinna saman en starfslok mín voru gerð í mesta bróðerni,“ sagði Guðmundur Örn á þeim tímamótum. Ingvi Hrafn tók við starfi sjónvarpsstjóra en útsendingum á stöðinni var svo hætt í nóvember 2017.
Guðmundur Örn stofnaði síðar sjónvarpsstöðina Hringbraut með Sigmundi Erni Rúnarssyni og Sigurði K. Kolbeinssyni. Hann varð stjórnarformaður og var stærsti hluthafi í fjölmiðlafyrirtækinu sem sameinaðist Fréttablaðinu árið 2019.